Uppselt á sýningarsvæði Verk og vit
Uppselt er á sýningarsvæði Verk og vit nú þegar tæpur mánuður er í opnun á sýningunni sem haldin verður í fimmta sinn í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal 12.-15. mars næstkomandi. Yfir 100 fyrirtæki og stofnanir munu kynna vörur sínar og þjónustu á sýningunni.
Í tilkynningu er haft eftir Áslaugu Pálsdóttur, framkvæmdastjóri AP almannatengsla sem er framkvæmdaaðili sýningarinnar, að mikill metnaður sé hjá sýnendum sem leggi mikla vinnu við undirbúning og hönnun sinna sýningarsvæða sem skili sér án efa í glæsilegri sýningu. Áslaug segir að fagsýning eins og Verk og vit sé mikilvægur vettvangur fyrir byggingariðnaðinn. Sýningin feli í sér tækifæri fyrir fagaðila, innlenda jafnt sem erlenda, að kynna vörur sínar og þjónustu og til að styrkja tengslanetið. Nú sé góður tími til að sækja fram og þétta raðirnar og fara yfir verkefnin sem framundan eru.
Meðal sýnenda á Verk og vit eru byggingarverktakar, verkfræðistofur, menntastofnanir, fjármála- og ráðgjafafyrirtæki, tækjaleigur, hugbúnaðarfyrirtæki og sveitarfélög svo eitthvað sé nefnt.
Framkvæmdaaðili sýningarinnar er AP almannatengsl en samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn.