Fréttasafn



13. feb. 2018 Almennar fréttir Lögfræðileg málefni

Uppsöfnuð viðhaldsþörf verður skuld næstu kynslóða

Það skýtur skökku við að leggja eigi áherslu á sjálfbærni og ábyrgð gagnvart næstu kynslóð í fjármálastefnunni á sama tíma og skuldasöfnun vegna afskrifta í innviðum er eins mikil og raun ber vitni. Uppsöfnuð viðhaldsþörf verður þá skuld næstu kynslóða. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn Samtaka iðnaðarins um tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022 sem send hefur verið til fjárlaganefndar. Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.

Í umsögninni segir einnig að arðsemi innviðafjárfestinga sé mikil ef rétt er haldið á spilunum og útgjaldaukning hins opinbera til þessa málaflokks helgist af varfærni. Í því ljósi sé umhugsunarvert að ekki sé beitt neinni kerfisbundinni forgangsröðun í veitingu fjár til t.d. samgönguinnviða. Með ábyrgri forgangsröðun sé unnt að auka framleiðni samgöngukerfisins og í leiðinni hagkerfisins alls. Þá segir að lítil framleiðni hafi verið vandi íslensks efnahagslífs um langa hríð. Nefnt er að í skýrslu sem unnin var af Samtökum iðnaðarins í samstarfi við Félag ráðgjafarverkfræðinga sem kom út síðastliðið haust sé uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða landsins metin 372 ma.kr., þar af rösklega 80 ma.kr. í þjóðvegakerfinu. 

Röng forgangsröðun í opinberum fjármálum

Í umsögninni er bent á að í þjóðhagsspá Hagstofunnar sem lögð er til grundvallar fjármálastefnunni sé gert ráð fyrir að fjárfesting hins opinbera verði 2,9% af landsframleiðslu út spátímabilið, þ.e. til ársins 2022. Það er sama hlutfall og sú fjárfesting hefur verið sem hlutfall af landsframleiðslu í þessari efnahagsuppsveiflu, þ.e. á tímabilinu frá 2010 til 2016 en á þeim tíma hefur ofangreind uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða hagkerfisins myndast. Fullyrða megi að þessir innviðir hafi aldrei verið mikilvægari fyrir efnahagsframvinduna og nú og þannig sé vandséð að hagvexti næstu ára verði haldið uppi án þess að verulegt átak sé gert í uppbyggingu þeirra á næstu árum. Í þessu ljósi endurspeglist því bæði röng forgangsröðun í opinberum fjármálum og ákveðinn forsendubrestur þess hagvaxtarskeiðs sem Hagstofan spáir að sé framundan. Samtök iðnaðarins telja að með átaki á þessu sviði sé hægt að auka hagvöxt og framleiðni í hagkerfinu bæði til lengri og skemmri tíma.  

Myndun