Fréttasafn



16. jún. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Orka og umhverfi

Úrskurður um Hvammsvirkjun vonbrigði

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, segir í hádegisfréttum Stöðvar 2 á Bylgjunni um úrskurð þess efnis að virkjanaleyfi Hvammsvirkjunar hafi verið fellt úr gildi grafalvarlegan. „Hann er auðvitað fyrst og fremst vonbrigði svona í ljósi þess að við þurfum á meiri grænni orku að halda á Íslandi. Stjórnvöld eru auðvitað með mjög skýr og háleit markmið til að mynda um orkuskipti. Við þurfum á orku að halda fyrir framtíðaruppbyggingu í atvinnulífi og svo framvegis. Það tók Orkustofnun 19 mánuði að afgreiða umsókn Landsvirkjunar um virkjanaleyfi. Umsóknin stendur enn þrátt fyrir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar en það gæti tekið langan tíma að uppfylla þau skilyrði sem nefndin setur og á þessari stundu óvíst hvort það er yfirleitt hægt.“ 

Alltof margar hindranir í kerfi orkuöflunar í landinu

Sigríður segir að tvöfalda þurfi raforkuframleiðslu á Íslandi á næstu 10 til 20 árum, tafir væru ekki góðar fyrir samfélagið og hagkerfið allt og að stjórnvöldum hafi ekki auðnast að búa til umgjörð þannig að markmiðum þeirra um orkuskipti verði náð. „Þá má segja að stjórnvöld hafi að vissu leyti brugðist og því miður ekki tekist að búa til umgjörð til að liðka fyrir þessum markmiðum. Það er vísbending um að allt of margar hindranir eru í kerfi orkuöflunar í landinu.“ 

Sigríður segir að það þurfi að liðka fyrir orkuuppbyggingu á Íslandi og það þurfi að gera það vegna loftslagsmarkmiða stjórnvalda en líka til þess að halda áfram að byggja hér upp öflugt samfélag. 

Bylgjan/Stöð 2/Vísir, 16. júní 2023.