Fréttasafn



23. jan. 2026 Almennar fréttir Mannvirki

Útboð ríkisins skipta miklu þegar önnur verkefni dragast saman

Á tímum þar sem er að hægja á í samfélaginu og önnur verkefni að dragast saman þá skiptir það gríðarlega miklu máli að ríkið er að koma inn og styður þá við áframhaldandi heilbrigðan byggingariðnað. Þetta segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, meðal annars í viðtali Björns Þórs Sigurbjörnssonar í Morgunvaktinni á Rás 1 um helstu niðurstöður sem komu fram á Útboðsþingi SI sem fram fór í vikunni. 

Á þinginu voru kynnt áform um útboð verklegra framkvæmda fyrir 221 milljarður króna hjá 11 opinberum verkkaupum. Jóhanna Klara segir að heildarvelta í greininni hafi verið 567 milljarðar króna á síðasta ári og því fari 25% af veltu í þessi opinberu verkefni. „Það var mjög jákvætt og gaman að heyra fjármálaráðherra einmitt ræða það á Útboðsþinginu. Það þarf að huga að því að þessi mikilvæga grein staðni ekki og við missum þekkingu og færni út úr greininni á meðan er að hægja á.“ Hún segir niðursveiflu vera í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Jóhanna Klara segir að á Útboðsþingi komi saman verktakar og allir helstu opinberu verkkauparnir. Hún segir Landsvirkjun hafa komið sterka inn á hverju ári undanfarin ár með mikil áform en ekki allt hafi gengið eftir. „Þau hafa verið mjög opin með það á Útboðsþingingu að það eru leyfisveitingaferlin sem standa í vegi fyrir því.“ Hún segir að NLSH, Nýi Landspítalinn, sé með mjög stórt verkefni á okkar mælikvarða og mælikvarða úti í heimi. Þá sé Framkvæmdasýsla ríkiseigna, FSRE, líka á þinginu með öll sín verkefni, Landsnet, Veitur, Rarki og fleiri. 

Jóhanna Klara segir það vera ánægjulegt að Vegagerðin sé að boða 38 milljarða í fjárfestingar núna. „Það eru auðvitað mikil gleðitíðindi því samgönguinnviðirirnar okkar hafa verið fjársveltir alltof lengi og eru þeir innviðir sem eru samkvæmt innviðaskýrslu SI og FRV þeir innviðir sem við skuldum mest í. Það var því mjög ánægjulegt að sjá það.“ 

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Jóhönnu Klöru í heild frá mín. 01:12:11

Morgunvaktin Rás 1, 22. janúar 2026.