Fréttasafn17. jan. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Útfæra í kapphlaupi við tímann vegna hörmulegrar stöðu

„Við höfum séð samdrátt á byggingamarkaðinum þar sem færri íbúðir verða byggðar heldur en verið hefur. En á móti kemur að sölutími fasteigna hefur lengst og það hefur hægst á húsnæðismarkaðinum. Staðan er því sú að það eru til íbúðir í uppbyggingarverkefnum sem eru langt komin, þannig að í sjálfu sér eru held ég til nægilega margar íbúðir til þess að mæta þessum þörfum,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, þegar hann er spurður í Morgunblaðinu um stöðuna á íbúðamarkaðinum og þörf Grindvíkinga fyrir húsnæði til búsetu til lengri tíma litið. 

Nýbyggingar fara langt með að mæta þörfum Grindvíkinga

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Sigurður segir að margar þessara íbúða séu á lokametrunum í byggingu eða tilbúnar. Telji hann að þessar nýbyggingar fari langt með að mæta þörfum Grindvíkinga. Spurningin sé hins vegar sú hvort þær henti og séu á réttum stöðum og af réttri stærð til þess að mæta þörfum þeirra. Það sé alla vega það góða í stöðunni að þessar íbúðir eru að miklu leyti til staðar en auk þess hafi verið bent á að fjölmargar íbúðir eru leigðar í skammtímaleigu á vefsíðum á borð við Airbnb sem mætti e.t.v. auðveldlega koma í langtímaleigu til þess að mæta þörfum Grindvíkinga. 

Uppbygging íbúðarhúsnæðis tekur að jafnaði tvö ár

Þá kemur fram í frétt Morgunblaðsins að Sigurður segi einnig að rætt hafi verið um að byggja upp íbúðir og reisa einingahús og sú hugsun sé góðra gjalda verð. „Það góða við það er að það hafa fundist lóðir sem eru tilbúnar undir framkvæmdir en vandinn er hins vegar sá að það tekur alltaf sinn tíma að koma hlutunum af stað. Uppbygging íbúðarhúsnæðis tekur að jafnaði tvö ár og það er í sjálfu sér ekki mikill munur á því hvort notaðar eru tilbúnar einingar eða hvort húsið er byggt á staðnum, vegna þess að einingaframleiðslan tekur tíma í verksmiðju áður en hægt er að koma einingunum á staðinn og ljúka byggingu þeirra þar. Í þessu tilviki væri þó hugsanlega hægt að flýta fyrir en fólk þarf hins vegar íbúðir núna, ekki eftir 12-14 mánuði. Það er svo annað mál hvernig koma á þessu öllu í kring. Á fólkið sjálft að kaupa eða einhver milliliður sem leigir íbúðir út og hver á aðkoma ríkis og sveitarfélaga að vera? Öll þessi atriði þarf að útfæra. Það þarf að gera í kapphlaupi við tímann vegna þeirrar hörmulegu stöðu sem uppi er í Grindavík og aðstæðna fólks. Allir þurfa þak yfir höfuðið og ég tel að samfélagið þurfi að hjálpa fólki í þessum aðstæðum.“

Morgunblaðið, 17. janúar 2024. 

Morgunbladid-17-01-2024