Fréttasafn25. okt. 2023 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar tvöfaldast á 5 árum

Í nýrri greiningu SI kemur meðal annars fram að útflutningstekjur hugverkaiðnaðar hafi tvöfaldast á fimm árum og námu árið 2022 um 240 milljörðum kr. Útflutningstekjur greinarinnar jukust um tæplega 17% á fyrri helmingi þessa árs og stefnir í að þær verði 280 milljarðar kr. á árinu. Gangi það eftir hefur greinin þrefaldað útflutningsverðmæti sitt á einum áratug. Yfirskrift greiningarinnar er Skattahvatar rannsókna og þróunar auka framleiðni og bæta lífskjör.

Annað sem kemur fram er:

  • Skattfrádráttur, eða skattahvatar, rannsókna og þróunar (R&Þ) leiðir til aukinna fjárfestinga í nýsköpun í iðnaði og hærri framleiðni sem eflir og bætir lífskjör á Íslandi.
  • Með þessum skattahvötum hefur verðmætasköpun aukist, verðmætum störfum fjölgað og þeir hafa leyst úr læðingi krafta hugverkaiðnaðar. Þeir hafa þannig rækilega sannað gildi sitt og er að mati Samtaka iðnaðarins (SI) mikilvægt að þeir verði festir í sessi.
  • Á síðasta ári rann yfir 90% af framlögum ríkisins vegna R&Þ til iðnfyrirtækja sem endurspeglar þá staðreynd að nýsköpun á sér fyrst og fremst stað í iðnaði þó afrakstur nýsköpunar sé hagnýttur í flestöllum atvinnugreinum og á flestum sviðum samfélagsins.
  • Heildarfjárfesting í R&Þ hefur vaxið undanfarin ár samhliða hærri skattahvötum og nam 2,8% af vergri landsframleiðslu (VLF) á árinu 2021. Hlutfallið var 2,0% árið 2018. Meirihluti þess fjár kemur frá fyrirtækjum.
  • Í nýlegri skýrslu OECD um íslenskt efnahagslíf kemur fram að aukning skattahvata fyrir R&Þ hafi haft jákvæð áhrif á fjárfestingar fyrirtækja í R&Þ hér á landi, á umfang og afkomu fyrirtækja og leitt til fjölgunar verðmætra starfa. Að mati OECD er þetta jákvæð þróun þar sem hagsæld þjóða til lengri tíma helst í hendur við fjárfestingu í R&Þ.
  • Framlag ríkisins vegna skattahvata nam um 3 mö.kr. árið 2018 en á sama tíma vörðu fyrirtæki 37 mö.kr í fjárfestingu í R&Þ. Árið 2021 nam framlag ríkisins 10 mö.kr. og fjárfesting fyrirtækja í R&Þ rúmlega 65 mö.kr.
  • Í fjárlagafrumvarpi 2024 er áætlað að framlag ríkisins vegna R&Þ verði 15 milljarðar kr. árið 2024. Þetta endurspeglar væntingar um að fjárfesting fyrirtækja í R&Þ haldi áfram að aukast.

Hér er hægt að nálgast greiningu SI.