Fréttasafn



5. des. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Útflutningstekjur mikilvægasti árangursmælikvarði nýsköpunar

„Það er mikil gróska í nýsköpun á Íslandi en við getum ekki eingöngu mælt árangurinn i fjölda stofnaðra fyrirtækja. Árangurinn verður að endurspeglast í útflutningstekjum sem ég held að sé mikilvægasti árangursmælikvarðinn og í hlutfalli fjárfestinga í rannsóknum og þróun af landsframleiðslu þar sem það gefur til kynna hvert við erum að stefna inn í framtíðina.“ Þetta kemur meðal annars fram í viðtali við Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Sigríður segir að fjárfesting í nýsköpun sé í raun hagvöxtur framtíðarinnar. „Þessir þættir eru að mínu mati helstu árangursmælikvarðarnir á hvar við stöndum í nýsköpun og við stöndum ekkert sérstaklega vel þegar við lítum til þeirra. Samsetning landsframleiðslunnar og útflutnings gefur ekki til kynna að við séum komin á þann stað sem við viljum vera á. Þá er frumkvöðlaumhverfið á Íslandi eitt á meðan annað er nýsköpunarumhverfið en það er ekki alltaf sami hluturinn þó þar sé oft skörun. Við erum því miður ekki að sjá nógu mörg nýsköpunarfyrirtæki taka á loft og það eru ennþá of mörg sem verða fyrir stórum hindrunum og ein sú helsta, auk fjármögnunarvanda, er skortur á aðgengi að sérfræðiþekkingu. Við viljum að stjórnvöld dragi úr þeim vanda með því að efla umgjörðina fyrir íslensk fyrirtæki við að fá til sín erlenda sérfræðinga en auk þess þarf menntakerfið að taka breytingum.“ 

Viðskiptablaðið, 5. desember 2019.