Fréttasafn



24. okt. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Útflutningsverðmæti sem tapast allt að 6 milljarðar á mánuði

„Norðurál er eitt stærsta útflutningsfyrirtæki þjóðarinnar og útflutningsverðmætin sem tapast geta verið allt að sex milljarðar á mánuði,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í kvöldfréttum Sýnar um stöðuna Norðuráls á Grundartanga sem hann segir grafalvarlega fyrir samfélagið í heild. Hann nefnir einnig að innlendur kostnaður fyrirtækisins nemi um 50 milljörðum á ári og það eitt og sér geti haft gríðarleg áhrif á samfélagið.

Atvinnulífið sannarlega að kólna

Sigurður segir á Sýn að hugur SI sé hjá fólkinu sem starfi hjá Norðuráli og fólki sem þjónustar Norðurál í sínum fyrirtækjum. Þetta hafi áhrif á orkufyrirtækin, höfnina, flutningsfyrirtæki. Norðurál sé stærsti vinnustaðurinn á Vesturlandi og það megi ekki gleyma því að Íslendingar byggi sín lífskjör á því að framleiða verðmæti og flytja út í formi vöru og þjónustu. Hann segir samtökin hafa miklar áhyggjur af stöðunni í ljósi þessa, falls Play og lokun kísilverksmiðjunnar á Bakka. Þá segir hann að fréttum af uppsögnum fari fjölgandi og tölur Hagstofunnar frá því í gær að störfum í iðnaði fari fækkandi milli ára og velta fari minnkandi. „Atvinnulífið er sannarlega að kólna,“ segir hann og að það þýði að stjórnvöld verði að setja samkeppnishæfni í fyrsta sæti og forgang. „Það þarf að taka af skarið mjög hratt þar.“ Í því samhengi þurfi að huga að regluverki, mannauðsmálum, skattamál, raforkumarkaði, innviði og aðgengi að erlendum mörkuðum.

Seðlabankinn hljóti að lækka stýrivexti 

Jafnframt kemur fram í máli Sigurður að Seðlabankinn hljóti að bregðast við með því að lækka stýrivexti í nóvember þegar bankinn tilkynnir um síðustu stýrivaxtaákvörðun ársins í nóvember.

Á vef Vísis er hægt að nálgast frétt Sýnar. 

Sýn/Vísir, 23. október 2025.

Syn-23-10-2025_1

Kolbeinn Tumi Daðason ræddi við Sigurð í beinni útsendingu á Sýn.