Fréttasafn



5. okt. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Útgjöld til vegakerfisins of lág

Í frétt Viðskiptablaðsins um skoðun samgönguráðherra á frekari einkafjármögnun og gjaldtöku í vegakerfinu í kjölfar góðs árangurs af Hvalfjarðargöngum er rætt við Ingólfur Bender, aðalhagfræðingSamtaka iðnaðarins, sem bendir á að hlutfallið sem fari í vegakerfið nú sé mjög lágt sögulega séð, bæði sem hlutfall af umferð og landsframleiðslu. „Það er verið að auka útgjöldin á milli ára úr tæplega 20 milljörðum í tæplega 23,5 milljarða, sem er aukning úr 0,7% af landsframleiðslu í ríflega 0,8% af landsframleiðslu, en hlutfallið lækkar síðan árin 2021 og 2022 aftur. Á tímabilinu 1998 til 2010 voru þau hins vegar 1,1% af landsframleiðslu, en eftir það erum við komin út fyrir líftíma núverandi ríkisstjórnar og þess bráðavanda sem uppsöfnuð þörf skapar.“

Fjárfestingum sé beint í framkvæmdir sem skapa mestan þjóðhagslegan arð

Ingólfur bendir jafnframt á að nú sé mun hærra hlutfall verðmætasköpunar landsins háð vegakerfinu vegna ferðamannastraumsins en var áður. „Ég sakna þess líka að fjárfestingum sé beint í þær framkvæmdir sem skapa mestan þjóðhagslegan arð, það er draga mest úr töfum og draga úr slysum, líkt og við sjáum gert í löndunum í kringum okkur. Ég var sjálfur í því að meta þjóðhagslegan arð af Hvalfjarðargöngum fyrir Hagfræðistofnun og ef eitthvað var þá var það vanmat hjá okkur. Þeir útreikningar voru nýttir í baráttunni við að koma þeirri framkvæmd á, sem var ekki auðvelt verk.“

Viðskiptablaðið / Vb.is, 4. október 2018.