Fréttasafn



5. maí 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Útgjöld vegna aðgerða frekar lítil í alþjóðlegu samhengi

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er rætt við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, sem segir kostnað ríkissjóðs við efnahagsaðgerðapakkana þrjá sem ríkisstjórnin hefur lagt fram vera tæplega 100 milljarðar króna að mati Samtaka iðnaðarins. Það þýði að útgjöld ríkisins vegna aðgerðanna séu um 3,6% af vergri landsframleiðslu sem Ingólfur segir vera frekar lítið í alþjóðlegu samhengi. „Það segir þó aðeins hluta sögunnar því halli ríkissjóðs er að aukast mjög mikið. Fjárlög ríkisins fyrir árið 2020 gerðu ráð fyrir tæplega 10 milljarða króna halla en nú er áætlað að hann verði á bilinu 250 til 300 milljarðar. Áhrif faraldursins eru því mjög mikil.“

Eitt er umfang og annað er raunverulegur kostnaður

Í fréttinni kemur fram að þegar aðgerðirnar hafi verið kynntar hafi verið sagt að umfang þeirra næmi um 350 milljörðum króna. Sú framsetning hafi þó ekki verið villandi að mati Ingólfs. „Eitt er umfang og annað er raunverulegur kostnaður. Það var enginn feluleikur með það að stór hluti aðgerðanna fólst í að fresta skattgreiðslum, flýta framkvæmdum og auka útlánagetu bankanna. Þessar tölur eru metnar inn í heildarupphæð aðgerðapakkans.“ Góðu fréttirnar séu að skuldastaða ríkissjóðs er sterk. „Skuldir hins opinbera voru í lok síðastliðins árs rétt um 27% af vergri landsframleiðslu sem er með því lægsta sem þekkist í alþjóðlegum samanburði. Við erum því betur í stakk búin en flest önnur ríki til þess að mæta áhrifum COVID-19 faraldursins með öflugum aðgerðum í ríkisfjármálum.“

Ríkisstjórnin þarf að ráðast í frekari aðgerðir

Ingólfur segir í frétt Fréttablaðsins að miklu máli skipti að loforð ríkisstjórnarinnar verði efnd hratt. „Það er ekki nóg að lofa ríkistryggðum lánum á lágum vöxtum heldur þarf að veita slík lán.“ Hann nefnir að miklar tafir hafi verið á því að brúarlán, sem tilkynnt var um þann 21. mars, komi til framkvæmda. Þá segir í fréttinni að það sé mat SI að ríkisstjórnin þurfi að ráðast í frekari aðgerðir enda stefnir í að samdráttur í landsframleiðslu verði sá mesti hér á landi í yfir 100 ár. „Atvinnuleysið er alvarlegasta vandamálið. Hér þarf að fjölga störfum eins fljótt og auðið er.“ Meðal aðgerða sem hann telur nauðsynlegar sé að ráðist verði skjótt í framkvæmdir, álögum verði létt á fyrirtæki meðal annars með lækkun tryggingagjalds og fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði, regluverk verði einfaldað og hindrunum rutt úr vegi. Þá sé mikilvægt að hvetja enn frekar til nýsköpunar með skattaívilnunum, fjölga starfs- og tæknimenntuðum á vinnumarkaði með því að tryggja fleirum skólavist í haust og tryggja námslok og bæta umgjörð byggingarmála til að tryggja hraðari og hagkvæmari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. 

Fréttablaðið, 5. maí 2020.

Frettabladid-05-05-2020