Fréttasafn11. feb. 2015 Menntun

Úthlutaði styrkjum að fjárhæð átta milljóna

Fyrsti aðalfundur sjóðsins Forritara framtíðarinnar var haldinn í húsakynnum Reiknistofu bankanna (RB) 5. febrúar síðastliðinn. Sjóðurinn hóf starfsemi sína í byrjun árs 2014 og er meginhlutverk hans að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Skólar og sveitarfélög geta sótt um styrki úr sjóðnum til að efla tæknikennslu og notkun á tækni í skólastarfi og fá til þess þjálfun og tækjabúnað eftir þörfum.

Alls barst sjóðnum 91 umsókn um styrki frá grunn- og framhaldsskólum landsins árið 2014 og úthlutaði sjóðurinn styrkjum að andvirði tæpra 8 milljóna króna. Skólarnir sem fengu styrkina voru Grunnskóli Bolungarvíkur, Áslandsskóli, Brúarskóli, Kópavogsskóli, Smáraskóli, Kirkjubæjarskóli, Grunnsólinn í Sandgerði og Grunnskóli Vestmannaeyja.

Gísli nýr í stjórn

Ný stjórn var kjörin á fundinum en fjórir af fimm núverandi stjórnarmeðlimum gáfu kost á sér til áframhaldandi setu í stjórnina. Það eru þau Guðmundur Tómas Axelsson markaðsstjóri RB, Katrín Dóra Þorsteinsdóttir forstöðumaður hugverkaiðnaðar og mannauðs hjá Samtökum iðnaðarins, Ragnhildur Geirsdóttir framkvæmdastjóri Rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Landsbankans og Sigríður Olgeirsdóttir framkvæmdastjóri Rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka.

Gísli Þorsteinsson markaðsstjóri Nýherja gaf ekki kost á sér áfram og tekur Sigfríður Sigurðardóttir skrifstofustjóri CCP sæti hans í stjórninni.

Geta nú státað af frábærri aðstöðu

Grunnskóli Bolungarvíkur hlaut styrk í fyrri úthlutun sjóðsins og hefur formlega sett forritun inn í tölvukennsluna hjá sér. Soffía Vagnsdóttir fyrrverandi skólastjóri Grunnskóla Bolungarvíkur sagði frá því á aðalfundinum hvaða þýðingu styrkurinn frá Forriturum framtíðarinnar hafði fyrir skólann.

„Við erum stolt og innilega þakklát fyrir að hafa dottið í þennan lukkupott. Við hefðum aldrei getað fjárfest í þessu sjálf þ.e. tölvubúnaðinum og námskeiðunum. Ég lít á þetta sem stóran hluta af endurmenntun kennara auk þess sem við getum nú státað af frábærri aðstöðu í skólanum á sviði tölvubúnaðar. Skólinn hefur sett forritun á námsskrá og hefur styrkurinn leitt til margfeldisáhrifa og vakið upp áhuga í nágrannaskólunum í kring,“ sagði Soffía.