Úthlutun úr Tækniþróunarsjóði flýtt og aukið fjármagn
Stjórn Tækniþróunarsjóðs hefur ákveðið að flýta öllum úthlutunum sjóðsins á árinu í samráði við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu en stjórnvöld hafa aukið fjármagn til sjóðsins um 700 milljónir króna á þessu ári sem hluta af aðgerðum til að örva atvinnulífið. Sjóðurinn hefur því 3.030 milljónir króna til úthlutunar á árinu til að styrkja ný verkefni og til verkefna sem sjóðurinn er nú þegar að styrkja. Þetta kemur fram á vefsíðu Rannís.
Þar segir jafnframt að stjórn sjóðsins úthluti styrkjum tvisvar á ári, í vorúthlutun og haustúthlutun. Stefnt sé að því að flýta afgreiðslu umsókna sem bárust á fyrstu þremur mánuðum ársins og áætlað sé að tilkynna úthlutun um mánaðarmótin apríl-maí. Þá verði umsóknarfrestur sem öllu jafna sé 15. september færður fram í júní. Stefnt sé að seinni úthlutun ársins í ágúst í stað desember. Með þessum aðgerðum verði hægt að nýta fjármagn sjóðsins strax til að nýta frumkvöðla til að bregðast við efnahagslegum áföllum enda sé ótvírætt að nýsköpun sé mikilvæg til að snúa hjólum efnahagslífisins í gang.
Á vef Rannís er hægt er að nálgast frekari upplýsingar.