Fréttasafn8. des. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Útilokað að frumvarp um forgangsorku fari í gegn

„Það er algerlega útilokað að þetta frumvarp fari í gegn á Alþingi í óbreyttri mynd og raunar teljum við ekki þörf á lagasetningu af þessu tagi, af þeirri ástæðu að hægt er að fara aðrar leiðir sem eru ekki eins íþyngjandi og skaðlegar og þessi.“ Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Morgunblaðsins og vísar þar til frumvarps um breytingu á raforkulögum sem kallað hefur verið neyðarfrumvarp og er m.a. ætlað að veita Orkustofnun heimild til að forgangsraða raforku á markaði. Í fréttinni kemur fram að SI hafi reifað afstöðu til frumvarpsins á fundi atvinnuveganefndar Alþingis í gærmorgun en samtökin leggi fram margvísleg og ítarleg rök gegn samþykkt þess í umsögn

SI leggjast gegn því að markaðurinn sé tekinn úr sambandi

Sigurður segir í fréttinni að í frumvarpinu sé verið að taka markaðinn úr sambandi og leggjast samtökin alfarið gegn því. „Okkur finnst skjóta skökku við að Alþingi skuli treysta sér til að setja neyðarlög og fara í skömmtun á raforku, en ekki treysta sér til að setja neyðarlög til að ráðast að rótum vandans og auka framboð á raforku. Það er mjög sérstakt að stjórnvöld skuli ekki hafa leitað allra annarra leiða, t.d. á forsendum markaðarins, til þess að greiða úr þessari stöðu.“

Engin þörf á nýjum heimildum Orkustofnunar til inngrips

Í fréttinni segir að Sigurður bendi á að nær væri að leiða orkukaupendur og orkusala saman og kanni hvort kaupendur séu að nota alla þá orku sem þeir kaupi skv. samningum, en stórnotendur hafi ekki heimild til þess að selja frá sér umframraforku, sé hún til staðar. Slík markaðslausn gæti komið til greina í þessari þröngu stöðu og verið sé að skoða þá leið. Þá kemur fram að Landsnet hafi heimild til að grípa inn í markaðinn við tilteknar aðstæður eins og hent hafi og engin þörf sé á nýjum heimildum Orkustofnunar til inngrips. 

Efast um hæfi Orkustofnunar 

Í  frétt Morgunblaðsins kemur fram að SI hafi einnig efasemdir um hæfi Orkustofnunar til að sinna slíku hlutverki „Orkumálastjóri hefur á síðustu árum viðrað skoðanir sínar á því hverjir ættu að fá að kaupa raforku og hverjir ekki. Það eru fáir stjórnmálamenn sem tala á þessum nótum, en þó er þetta viðfangsefni stjórnmálanna, og það er sérstakt að orkumálastjóri skuli gera það. Í umsögn SI bendum við meðal annars á nokkur opinber ummæli orkumálastjóra um forgangsröðun raforku, orkusölusamninga og höfum bent á að þegar þeir renni út sé lag til að nýta orkuna í eitthvað annað, en endurnýja ekki samninga. Við bendum á nokkur dæmi um þessi opinberu ummæli og færum fyrir því rök að þarna sé líklega um að ræða vanhæfi sem nær ekki bara til orkumálastjóra sjálfs, heldur Orkustofnunar allrar.“ Hann bætir við að þetta hafi verið rætt opinskátt á fundi atvinnuveganefndar. „Það eru sárafáir ef einhverjir á markaðnum sem bera traust til Orkustofnunar, sem er grafalvarleg staða. Staðan er líka þannig, bæði austan hafs og vestan, að stjórnvöld eru í óðaönn að greiða götu uppbyggingar á endurnýjanlegri raforku og einfalda regluverk í því skyni. Hér á landi hefur því miður alltof lítið gerst í þessum efnum í allt of langan tíma og þess vegna erum við komin í þá stöðu að raforka er einfaldlega uppseld og við því þarf að bregðast,“ 

Í niðurlagi fréttarinnar kemur fram að ekki hafi náðst í Bjarna Jónsson, formann umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, á þeirri stöðu raforkumála sem upp sé komin. 

Morgunblaðið, 8. desember 2023.

Morgunbladid-08-12-2023