Fréttasafn29. ágú. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Útlit er fyrir minni hagvöxt í ár og næstu ár en spáð hefur verið

Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag um breytingar á hagvaxtaspám er rætt við nokkra hagfræðinga sem segja að verði vöxtur ferðaþjónustu undir áætlunum í ár gæti hagvöxtur orðið undir spám. Rætt er meðal annars við Ingólf Bender, hagfræðing Samtaka iðnaðarins, sem segir útlit fyrir minni hagvöxt í ár og næstu ár en spáð var. Hann segir að fyrir vikið verði innistæða fyrir launahækkunum ekki jafn mikil og væntingar voru um. Þróun framleiðni á næstunni muni hafa mikið um það að segja hver þessi innistæða verður og í því sambandi hvernig takast mun til í nýsköpun, uppbyggingu innviða, menntamálum og almennt hvernig takist að tryggja „að starfsumhverfið sé þannig að hér dafni virðisaukandi starfsemi“. 

Hagvaxtarspár færðar niður vegna minni vaxtar í ferðaþjónustu

Ingólfur rifjar upp í samtalinu við Baldur Arnarson, blaðamann, að Seðlabankinn hafi niðurfært hagvaxtarspána í síðustu Peningamálum. Þá spái bankinn nú 8,7% vexti í útflutningi vöru og þjónustu í ár en hafi spáð 10,5% vexti í Peningamálum í maí. „Greiningaraðilar eru að færa niður spár um hagvöxt. Vöxtur ferðaþjónustu í ár hefur ekki verið jafnmikill og spáð var. Þá eyðir hver ferðamaður minna en áður. Þegar rýnt er í tölur um fjölda ferðamanna og gistinætur er að mínu mati augljóst að það er að hægja á vexti tekna af ferðamönnum. Það hefur eðlilega áhrif á áform um fjárfestingu, hvort sem það er í hótelum, bílum, afþreyingu eða öðru. Það mun trappa niður vöxtinn í hagkerfinu á næstunni.“

Morgunblaðið, 29. ágúst 2017. mbl.is.