Fréttasafn



10. mar. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Útspil ríkisstjórnarinnar mikilvægt

Þetta útspil ríkisstjórnarinnar er mikilvægt, það er mikilvægt að stjórnin sendi skýr skilaboð um það að hún ætli að standa með fyrirtækjum landsins og almenningi í þeim aðstæðum sem uppi eru. Auðvitað er mörgum spurningum ósvarað í því sem að kynnt var í dag en við væntum þess að svona smám saman á næstu dögum og vikum að þá muni myndin skýrast. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni þar sem rætt var um kynningu ríkisstjórnarinnar á aðgerðum vegna COVID-19. 

Hann segir jafnframt að vandinn eins og hann blasi við sé að grunni til tvíþættur. „Hann er annars vegar sértækur og snýst um veiruna COVID-19 og afleiðingar af henni en hins vegar er þetta almennur vandi og snýst um þau óveðursský sem eru yfir Íslandi og íslensku efnahagslífi og eitthvað sem hefur blasað við okkur í svolítinn tíma, að hagkerfið er að kólna eftir heilmikinn vöxt á síðustu árum. Þannig að það þarf í rauninni að grípa til aðgerða við báðum þáttum þessa vanda.“

Undirliggjandi staða er mjög sterk

Sigurður segir að myndin sé heldur dekkri núna þegar að veiran sé komin í spilið en þetta sé auðvitað rétt að við höfum búið í haginn á undanförnum árum þannig að undirliggjandi staða sé mjög sterk. „Ríkissjóður skuldar lítið, staða okkar gagnvart útlöndum er mjög góð, það er til gjaldeyrir í landinu og svo framvegis. Þannig að við erum í mjög góðri stöðu til þess að takast á við þessa erfiðleika. En til þess að við komumst út úr þessu að þá þarf auðvitað að beita réttu meðulunum og þess vegna er þessi kynning ríkisstjórnarinnar í dag svo mikilvæg, að þau séu að senda skýr skilaboð um að stjórnvöld ætli sér að grípa til þeirra aðgerða sem að nauðsynlegt er.“

Þá segir Sigurður að það sé auðvitað margt þarna sem eigi eftir að útfæra og margt þarna sé mjög gott. „Við auðvitað höfum talað um það að opinber gjöld séu býsna há, horft þar til tryggingagjalds og fasteignagjaldanna sem hafa hækkað mikið á síðustu árum. Þarna eru boðaðar aðgerðir varðandi fjármálakerfið, þ.e.a.s. að gera bönkunum kleift að styðja við fyrirtækin á þessum erfiðu tímum og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt. Þannig að það hægist ekki um of á gangverkinu.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.