Fréttasafn19. mar. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Útspil Seðlabankans mjög jákvætt

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins að útspil Seðlabankans sem kynnt var í gær hafi verið mjög jákvætt. „Skilaboðin voru sterk, sérstaklega þau að bankinn myndi ekki hika við að grípa til þeirra aðgerða sem á þyrfti að halda. Það eru mjög góð skilaboð að þetta verði aðeins fyrsta skref af mörgum, eftir því sem nauðsyn kemur til með að krefja.“ 

Sigurður segir jafnframt í blaðinu að þau skilaboð hafi haft meira að segja en vaxtalækkunin, en langmestu máli hafi þó afnám sveiflujöfnunaraukans skipt. „Mér finnst mikilvægt að árétta það að þótt hagkerfið sé í og stefni í mikla lægð vegna stöðunnar núna, má ekki gleyma því að það var tekið að kólna áður en veiran kom til. Ég vil horfa á afnám sveiflujöfnunaraukans í því ljósi. Það var algerlega tímabært, en hefði átt að gera fyrir þó nokkru síðan. Það hefur lengi legið fyrir að í kólnun stefndi, þótt enginn hafi séð nákvæmlega þessar aðstæður fyrir.“ Betra sé þó seint en aldrei. Þá segir hann að það sé óumdeilanlega jákvætt að bankinn skuli hafa stigið þessi skref og gefið út þessar yfirlýsingar. „Nú beinast svo sjónir að ríkinu. Ég veit að mörg fyrirtæki eru að bíða eftir því að tillögur ríkisstjórnarinnar verði lagðar fram, og munu taka ákvarðanir í framhaldi af þeim. Það sem Seðlabankinn kynnti í dag hjálpar vafalítið til, en þegar allt kemur til alls munu ríkisaðgerðirnar ráða úrslitum um afdrif margra.“

Viðskiptablaðið, 19. mars 2020.