Fréttasafn



4. des. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Vandamál þegar ófaglærðir ganga í störf iðnaðarmanna

Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar hjá SI, er meðal viðmælenda í fréttaskýringarþættinum Kveik á RÚV þar sem fjallað er um fasteignagalla. 

Í þættinum kemur fram að Samtök iðnaðarins séu frekar þekkt fyrir að berjast gegn of miklum inngripum hins opinbera og hafi mótmælt byggingareglugerð sem þau telji of íþyngjandi. Friðrik er spurður um eftirlit með byggingum: „Við höfum verið fylgjandi því að gera tilviljanakenndar úttektir. Og að því verði fylgt eftir. Þannig ætti þetta að geta skánað. Samkvæmt lögum í dag er hlutverk byggingastjóra að vera eftirlitsmaður fyrir hönd eiganda. Í dag er hann í öfugu hlutverki við það sem hann var áður. Menn skilja ekki alveg hvert er hlutverk byggingastjóra. Og það eru ekkert bara opinberir aðilar að mínu mati. Heldur líka þeir sjálfir. Þeir eru fastir í því að vera framkvæmdastjórar verks.“

Í þættinum segir Friðrik engan vafa leika á að fúsk sé vandamál og að ófaglærðir gangi í störf iðnaðarmanna sem sé ekki gott.

Þegar spurt er í þættinum hvert sé hægt að leita með eftirlit, ráðgjöf og kröfur um umbætur kemur fram að það sé mat Friðriks að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi úrslitavaldið en þar vilji menn ekki grípa inn í og telji sig ekki hafa lagaheimild til þess þótt aðrir séu því ósammála.

Á vef RÚV er hægt að horfa á þáttinn.

Kveikur-03-12-2020Ingólfur Bjarni Sigfússon hjá Kveik ræðir við Friðrik Á. Ólafsson.