Fréttasafn



3. júl. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Vanmetin áhrif vaxtalækkunar íbúðalána á fasteignamarkaðinn

Lækkun vaxta til íbúðalána var til umfjöllunar í helgarútgáfu Morgunblaðsins. Baldur Arnarson, blaðamaður, ræddi meðal annars við Ingólf Bender, hagfræðing SI, sem segir að áhrif lágra vaxta á fasteignamarkað hafi verið vanmetin í umræðunni. „Já, þetta hefur svolítið farið undir ratsjána. Þetta hefur ekki gerst hratt heldur hefur þetta verið sígandi þróun. Þá hafa menn verið að einbeita sér að öðrum þáttum sem hafa haft áhrif á eftirspurnina eftir húsnæði, sem er hratt vaxandi kaupmáttur ráðstöfunartekna, innflutningur á vinnuafli, útleiga íbúða í gegnum Airbnb og svo framvegis. Vaxtakjörin skipta sköpum. Hvert brot úr prósenti vegur þungt.“ 

Ingólfur segir jafnframt í fréttinni að áhrif þessarar þróunar eiga eftir að koma að fullu fram. „Já, þetta er eftirspurnarþáttur sem á eftir að lyfta undir markaðinn á næstu mánuðum og misserum. Þessi þáttur er ekkert að hverfa, heldur er þetta langtímaþróun á langtímavöxtum sem er að birtast. Við eigum eftir að sjá áhrifin á næstunni á húsnæðismarkaðinn.“ 

Hann segir einnig að þróunin muni drífa fjárfestingu í íbúðarhúsnæði, ásamt öðrum þáttum. Á sama tíma og íbúðakaupendur njóti hagstæðari vaxtakjara sé hækkandi fasteignaverð að hluta til afleiðing þessara vaxtakjara. Það aftur hækki þröskuldinn fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu eign og þurfi að leggja fram eigin fé. Í fréttinni segir ennfremur að Ingólfur bendi á að eignamyndun lántaka geti verið hæg af verðtryggðum lánum. Það geti aftur haft áhrif á hversu viðkvæm fjárhagsleg staða skuldsettra heimila er sé litið til lengri tíma. 

Morgunblaðið, 1. júlí 2017.