Fréttasafn6. maí 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Vantar 9.000 sérfræðinga í hugverkaiðnað næstu 5 árin

Í nýrri greiningu SI kemur fram að það vantar 9.000 sérfræðinga á næstu 5 árum ef vaxtaáform fyrirtækja í hugverkaiðnaði eiga að ganga eftir.  

Helstu niðurstöður greiningarinnar.

· Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar námu 192 mö.kr. á síðasta ári eða 16% af útflutningstekjum íslenska þjóðarbúsins. Það er ríflega 91 ma.kr. meira en gjaldeyristekjur greinarinnar voru árið 2013.

· Með markvissri stefnumörkun og aðgerðum stjórnvalda á undanförnum árum og drifkrafti og áræðni frumkvöðla hefur hugverkaiðnaður fest sig í sessi sem fjórða stoðin í verðmætasköpun og útflutningi Íslands.

· Mikil vaxtatækifæri eru enn fyrir hendi í hugverkaiðnaði en áframhaldandi vöxtur er óhugsandi nema ríkt framboð sé af sérhæfðri þekkingu, reynslu og mannauði.

· Til þess að vaxtaáætlanir í hugverkaiðnaði nái fram að ganga þarf að fjölga sérfræðingum um allt að 9 þúsund næstu fimm árin. Þetta mat er byggt á niðurstöðum könnunar meðal stjórnenda fyrirtækja í hugverkaiðnaði innan SI. Það eru 1.800 manns að meðaltali á ári.

· Í könnuninni kemur fram að í kringum 80% fyrirtækjanna vantar starfsfólk í dag til þess að viðhalda starfsemi sinni.

· Flest fyrirtækjanna segjast þurfa að fylla á bilinu 1-5 stöðugildi til þess að viðhalda núverandi starfsemi en dæmi eru um að fyrirtæki vanti allt að 80 nýja starfsmenn.

· Til þess að eiga möguleika á vexti segjast öll fyrirtækin þurfa að fjölga starfsfólki. Samtals telur sú þörf í dag á bilinu 350–400 stöðugildi og þar af gera fyrirtækin ráð fyrir að um helming þeirra þurfi að fylla með erlendum sérfræðingum.

· Áætluð þörf fyrirtækjanna sem þátt tóku í könnuninni til næstu fimm ára er samtals rúmlega 1.600 manns ef vaxtaráætlanir þeirra ná fram að ganga. Til þess að viðhalda starfsemi sinni þurfa þau á bilinu 500 til 600 manns. Af svörum fyrirtækjanna má dæma að þau gera ráð fyrir að allavega helming starfsmanna þurfi að sækja erlendis frá.

· Svörin benda til þess að mjög fjölbreytta þekkingu vanti inn í fyrirtækin. Flest fyrirtækin segjast þurfa forritara, sérfræðinga í hugbúnaðargerð og starfsfólk sem er reynt í hugverkavernd, auk þess sem mörg fyrirtækjanna þurfa sérfræðinga í markaðssetningu og sölu erlendis.

· Flest fyrirtækjanna vantar mjög sérhæfða þekkingu og reynslu. Sem dæmi má nefna sérfræðinga örgjörvaforritun, sérfræðinga í skýjalausnum með áherslu á persónuvernd, framleiðendur sem geta unnið innan tæknilistapípu, kvikara, sérfræðinga í þörungaræktun, sérhæfða viðmótshönnuði, fjárflæðishönnuði, leikjaprófara og sérfræðinga í lífrænni efnasmíði.

· Fyrirtækin sögðust mörg hver eiga erfitt með að spá fyrir um hvers konar hæfni þurfi á næstu árum þar sem þau starfa á brún tækniframþróunar og færni.

Hér er hægt að nálgast greininguna.