Fréttasafn



2. feb. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Vantar fleiri nýjar íbúðir á markaðinn

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, er í viðtali Andrésar Magnússonar í Dagmálum á mbl.is um  húsnæðismarkaðinn ásamt Magnúsi Árna Skúlasyni hjá RE. Í þættinum kemur fram að húsnæðismál verði eitt helsta kosningamál í sveitarstjórnarkosningum í vor og það eigi ekki aðeins við í Reykjavík, þótt þar verði þau fyrirferðarmest. Sigurður segir grunnvandann ljósan, það vanti fleiri nýjar íbúðir á markaðinn. Þar sé byggingariðnaðurinn allur af vilja gerður, en honum sé þröngur stakkur sniðinn af hinu opinbera. Sigurður segir að skipulagsmálin þurfi að endurskoða frá grunni en hann bindur miklar vonir við nýtt innviðaráðuneyti þar sem þessir málaflokkar hafa verið sameinaðir á einn stað sem muni vonandi skila árangri. „Það er alveg sama hversu mikil úrræði stjórnvöld fara í á eftirspurnarhliðinni þá þarf meira framboð. Og það gerist bara með einum hætti. En vandinn er líka sá að umgjörðin sem byggingarmarkaðnum er sniðinn, það er verið að biðja verktaka eða markaðinn að framleiða ákveðna vöru sem eru hagkvæmar íbúðir en það er erfitt, jafnvel ómögulegt, innan þess ramma sem stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, setja.“

Sigurður segir það taka langan tíma að byggja íbúðir. „Frá því að fyrsta skóflustunga er tekin líða kannski tvö ár þangað til að hægt er að flytja inn. Fram að fyrstu skóflustungu er auðvitað heilmikið ferli skipulagsmála og annað sem þarf að eiga sér stað þannig að þetta er langt ferli.“

Um verðbólguna segir Sigurður að það sé ekki rétt nálgun að hafna því að vandinn sé til staðar, hann blasi við okkur öllum á hverjum degi. „Við sjáum að þriðjungur af verðbólgunni núna stafar af hækkun húsnæðisverðs, þannig að áhrifanna gætir mjög víða.“ 

mbl.is, 2. febrúar 2021.

Dagmal-02-02-2022Sigurður Hannesson, Magnús Árni Skúlason og Andrés Magnússon.