Fréttasafn9. sep. 2019 Almennar fréttir Mannvirki Orka og umhverfi

Vantar iðnaðarmenn í Svíþjóð til að mæta loftlagsmarkmiðum

Í nýútkominni skýrslu Installatörsföretagen sem eru sænsk samtök rafverktaka, pípulagningamanna og blikksmiða kemur fram að vegna skorts á vel menntuðum iðnaðarmönnum sé ólíklegt að metnaðarfull markmið Svía í loftslagsmálum náist en í Svíþjóð er stefnt að því að losun gróðurhúsalofttegunda verði komin í núll árið 2045.

Í skýrslunni kemur fram að nú þegar vanti 17.500 fagmenn í þessum stéttum til að mæta þörfinni sem breyttar áherslur í loftslagsmálum hafi í för með sér. Fyrirsjáanlegt er að þörfin fyrir vel menntaða iðnaðarmenn í þessum greinum muni einnig aukast hratt á næstu árum en áætlað er að 2023 verði þörfin á nýjum iðnaðarmennum komin upp í 28.000 manns. Rafbílavæðing, aukin notkun sólarorku og snjallstýringar á lýsingar- og hitakerfum eru meðal þeirra verkefna sem kalla á aukinn fjölda iðnaðarmanna í Svíþjóð.

Hér er hægt að nálgast skýrslu Installatörsföretagen.