Fréttasafn29. mar. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Nýsköpun

Vantar innkaupastefnu fyrir íslenska hönnun og framleiðslu

Í nýjasta tölublaði Sóknarfæra er rætt við Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, um íslenska húsgagna- og innréttingaframleiðslu og hönnun. „Hlutverk Samtaka iðnaðarins er að standa vörð um íslenska framleiðslu og iðnað og íslensk fyrirtæki og hönnuðir eru að gera ótrúlega flotta hlut. Varðandi mannvirkjagerð þá er þetta þáttur í þeirri virðiskeðju, þ.e.a.s. hvað fer inn í byggingarnar. Hlutverk SI er jafnframt að huga að samkeppnishæfni íslenskrar framleiðslu og getu Íslendinga til að skapa hér ný störf og verðmæti sem við getum þá mögulega flutt út og búið þar með til auknar útflutningstekjur.“

Þegar fólk kaupir íslenskt styrkir það lengri virðiskeðju

Í viðtalinu bendir Jóhanna Klara á að fyrirtækjum, sem framleiða húsgögn og innréttingar, fari fækkandi hér á landi. „Það er synd. Íslendingar eru stoltir af náttúrunni, fólkinu og sögunni en einhvern veginn hefur okkur ekki tekist að búa til þetta sambærilega hugarfar gagnvart íslenskri hönnun og framleiðslu þegar kemur að húsgögnum og vörum.“ Þá kemur fram að eftir að Covid-heimsfaraldurinn skall á hafi Samtök iðnaðarins tekið þátt í stóru markaðsátaki sem kallast „Íslenskt – Láttu það ganga. „Það felur í sér ákall um vitundarvakningu sem felst í að þegar fólk kaupir eitthvað íslenskt þá er það í rauninni að styrkja lengri virðiskeðju.“

Getum vel búið til öflugar útflutningsvörur með hönnun okkar

Jóhanna Klara segir í viðtalinu að ef opinberir aðilar myndu styðja við íslenskan iðnað með markvissari hætti myndi það hafa jákvæð áhrif á eftirspurnina til framtíðar og að leita þurfi leiða til að velja íslenska hönnun inn í nýbyggingar sem eru að rísa í miðborginni. „Varðandi verð við innkaupin þá bendum við á að það þurfi alltaf að leggja áherslu á virðisaukann þegar keypt er íslenskt og hvað það felur í sér og hvort verið sé að búa til fleiri störf og aukin tækifæri. Það eru til lög um opinber innkaup og ríkið er auðvitað bundið af þeim að ákveðnu leyti þannig að þetta felur raunverulega í sér svolítið átak hjá stjórnvöldum. Og ég er alveg handviss um að þau eru tilbúin og vilja skoða þetta. Nú þurfum við bara að vinda okkur í að skoða þessa innkaupastefnu gagnvart íslenskri hönnun og framleiðslu. Það sem er líka svo mikilvægt í þessum stóru verkefnum er að opinberir aðilar eru auðvitað í aðstöðu til að sýna gott fordæmi. Hið opinbera getur varið fjármunum í samkeppnir eða ýtt undir þróun nýrra vara sem gætu svo öðlast sjálfstætt líf. Við megum ekki hugsa þetta of smátt. Við erum með ákveðna ímynd sem þjóð og getum vel búið til öflugar útflutningsvörur með hönnun okkar.“

Hið opinbera kaupi íslenska hönnun og húsgögn

Í viðtalinu er haft eftir Jóhönnu Klöru að ríkið ætti að hvetja til vöruþróunar og nefnir að margir aðilar komi að hönnun svo sem hönnuðir og framleiðendur: „Það sem við hjá SI erum að kalla eftir er þetta samtal þannig að hægt verði að setja einhverja opinbera stefnu. Við gætum til að mynda ákveðið að verja ákveðnum fjármunum í verkefni tengd hönnun, innkaupum eða vöruþróun sem er mjög þekkt erlendis og svo viljum við að það sé lögð áhersla á að kaupa inn íslenska hönnun og húsgögn. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að fara að byrja að búa til þessa vitneskju um að það er mikil verðmætasköpun í hönnun. Þetta er iðnaður sem auðvitað byggir á nýsköpun og hugviti og þarna eru gríðarleg sóknarfæri fyrir okkur. Við þurfum að fá opinbera aðila til að hefjast handa hvað þetta varðar.“

Sóknarfæri, 25. mars 2021.

Soknarfaeri-25-03-2021