Fréttasafn24. feb. 2022 Almennar fréttir Mannvirki

Vantar meiri fræðslu innan mannvirkjageirans

Friðrik Ólafsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, var í pallborðsumræðum á fundi sem Vinnueftirlitið stóð fyrir um vinnuvernd á hönnunar- og undirbúningsstigi í mannvirkjagerð sem var í beinu streymi í dag. Í máli Friðriks kom meðal annars fram að mikilvægt sé að eigendur, hönnuðir og framkvæmdaaðilar rýni saman hönnunargögn áður en framkvæmdir hefjast og haldi samtalinu áfram á framkvæmdartímum. Að verki loknu rýni allir þessir aðilar útkomuna á tilteknu verki með það í huga að læra og bæta enn frekar þá verkferla sem talið er að ekki hafi gengið nógu vel. Hann sagði að með þessu móti væru þeir sem að mannvirkjagerð koma að vinna saman að því að brjóta niður veggi sem allt of oft eru reistir á byggingartíma mannvirkis, engum til gagns. 

Þá kom fram í máli Friðriks að nauðsynlegt sé að útboðsgögn séu mjög skýr, t.d. að gerð sé krafa um að bæði við hönnun og framkvæmd sé gerð krafa um að horft sé til vinnuverndar. Hann lagði jafnframt áherslu á að því miður sé allt of algengt að innan mannvirkjageirans viti hver og einn ekki nægjanlega vel hvert hlutverk hans er. Friðrik sagði að það vanti miklu meiri fræðslu innan mannvirkjageirans.

Fundur-24-02-2022

Hér hægt að nálgast upptöku frá fundinum.

https://www.youtube.com/watch?v=J5gRR7gjVgQ