Fréttasafn26. mar. 2021 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Vantar ný byggingarsvæði og kerfið óskilvirkt

Þáttastjórnendurnir Heimir Karlsson og Gunnlaugur Helgason ræða við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í bítinu á Bylgjunni um nýja talningu SI á íbúðum í byggingu. Sigurður segir að ekki hafi verið færri íbúðir í byggingu í fjögur ár og að kólnun í byggingariðnaði hafi verið staðreynd árið 2019, fyrir Covid, en þá voru skýr merki um þetta. Hann segir þetta vera samspil ýmissa ástæðna og óvissa í hagkerfinu sé ein ástæða, auk þess sem  lóðaframboð sé mikið vandamál og regluverkið sé hamlandi. „Vandinn er að þetta tekur svo langan tíma, ferlið er svo langt.“ Hann nefnir dæmi sem verktaki sagði frá á Iðnþinginu þar sem hann hafi verið að klára byggingu íbúða núna en verkefnið hafi hafist fyrir sjö árum síðan, 2014. „Þannig að fimm ár fóru í kerfið, skipulag og fá öll leyfi. Þegar það er allt komið tekur tvö ár að byggja.“ Sigurður segir algengt að það taki svona langan tíma að byggja íbúðarhúsnæði. „Kerfið er að mörgu leyti flókið og óskilvirkt.“  Sigurður segir varðandi lóðaframboð að það sé mikill munur að byggja á ónumdu landi eða þétta byggð. Hann segir stöðuna vera misjafna hjá sveitarfélögunum. „Það er heilt yfir vandamál. Það vantar lóðir, vantar ný byggingarsvæði.“

Vantar yfirsýn yfir íbúðauppbyggingu

Sigurður segir í viðtalinu að vandinn sé að það vanti yfirsýn og bendir á þá staðreynd að Samtök iðnaðarins þurfi að senda út starfsmann til að telja íbúðir í byggingu. „Á Iðnþinginu sýndum við myndband um talninguna og  hvernig þetta fer fram. Flestir héldu að þetta væri leikþáttur en staðan er sú að þetta er nákvæmlega svona, það er keyrt um bæinn og labbað um byggingarsvæðin. Það er best að telja svalirnar, einar svalir fyrir hverja íbúð í fjölbýli, svona bara virkar þetta. Opinberu tölurnar hjá Þjóðskrá og Hagstofunni byggja á skilum frá byggingarfulltrúunum. Þeir senda inn tölur en þær koma bara svo seint. Þegar eru mikil umsvif þá koma tölurnar mjög seint inn og gefur ekki rétta mynd.“

Verðum í meiriháttar vandræðum eftir 2-4 ár

Sigurður segir að við séu að nálgast þá línu núna að við verðum í meiriháttar vandræðum eftir kannski 2, 3 eða 4 ár af því það eru 4.600 íbúðir í byggingu núna í þeim sveitarfélögum sem samtökin eru að telja og íbúðum í byggingu hafi fækkað um 1.100 á milli ára. „Svo kemur gat. Það þýðir að það er þrýstingur á verðið upp. Það getur líka haft áhrif á leiguverðið og það hækkar. Það getur orðið rof milli launanna eða kaupmáttarins og íbúðarverðs og það getur skilað sér með ólgu á vinnumarkaðnum. Það er bara mjög alvarlegt mál fyrir okkur öll. Ég trúi ekki öðru en að stjórnvöld hvort sem það er ríkið eða sveitarfélög hafi metnað til að sinna þessum málum vel.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.

Bylgjan, 26. mars 2021.