Fréttasafn



12. maí 2023 Almennar fréttir Mannvirki

Vantar rannsóknir í byggingariðnaði

Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri byggingarfyrirtækisins Jáverks og formaður Mannvirkjaráðs SI, segir í frétt mbl.is að það vanti rannsóknir í byggingariðnaði og það sé mikill söknuður af Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins. Í frétt Viðars Guðjónssonar segir Gylfi að ómögulegt sé að segja til um það hvort myglumál séu ný af nálinni. Hann segir að orðræða um verktaka í byggingargeiranum svíði og oft sé bakari hengdur fyrir smið.

Gylfi segir á mbl.is að enginn viti nákvæmlega hvers vegna svo mörg myglumál séu að koma upp. „Það eru svo margþættar ástæður á bakvið myglumálin. Þetta snýr að hönnun, efnisvali, byggingarhraða, gæði vinnubragða og auðvitað viðhaldi fasteigna." Hann segir að engin myglumál hafi komið upp í byggingum sem Jáverk hafi haft veg og vanda að því að hanna og byggja. „Við höfum ekki lent í myglu ennþá með þau verkefni sem við höfum hannað og byggt.“ 

Þá segir Gylfi á mbl.is að umræða um myglumál vera margslungna. Ein tilgátan sé sú að veðurfar hafi breyst með þeim hætti að á Íslandi sé meiri bleyta en áður. Hins vegar liggi engar rannsóknir og engin gögn sem hægt sé að grípa til þegar greina á vandann. „Hér eru séríslenskar aðstæður. Það eru ekki mörg lönd sem eru sífellt í rigningu og roki og því verðum við að gera meiri kröfur en aðrir t.a.m. hvað glugga varðar.“ 

Á mbl.is er hægt að lesa fréttina í heild sinni.

mbl.is, 12. maí 2023.