Fréttasafn



12. nóv. 2018 Almennar fréttir

Vantar rauða þráðinn í stefnumótun hins opinbera

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, ræddi um þær umbætur sem lagðar eru til í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins Mótum framtíðina saman - atvinnustefna fyrir Ísland í útvarpsþættinum Í bítinu á Bylgjunni. Þar segir Sigurður meðal annars að fyrr á þessu ári hafi samtökin gefið út skýrslu um samkeppnishæfni þar sem farið var yfir stöðuna eins og hún er núna en í þessari nýju skýrslu sé horft til framtíðar og settar fram lausnir til að bæta stöðuna. Hann segir hugmyndir um atvinnustefnu hafi breyst í tímans rás og núna snúist það um að bæta almenn skilyrði. Horfa eigi á menntun, innviði, nýsköpun og starfsumhverfi og ef hægt er að laga þetta séu skilyrðin betri fyrir alla til að reka fyrirtæki. 

Sigurður segir að það sé verið að móta stefnu í fjölmörgum málum á vegum ríkisstjórnarinnar, í nýsköpun, í menntamálum, í orkumálum og það sé komin samgönguáætlun og svo framvegis en það vanti rauða þráðinn í stefnumótunina. „Ef tekið er dæmi þá er eitt af því sem dregur okkur niður þegar kemur að nýsköpun er hvað það útskrifast fáir úr tæknigreinum, verkfræði og raunvísindum og heilbrigðisvísindum. En þeir sem eru að móta menntastefnu eru ekkert að velta þessu fyrir sér af því það vantar rauða þráðinn, fólk er ekki að tala saman. Við sjáum það líka að ríkisstjórnin kynnti stefnu í loftslagsmálum sem gengur út á rafbílavæðinguna, orkuskipti í samgöngum. Nokkrum dögum seinna kom út samgönguáætlun og þar var lítið sem ekkert talað um orkuskipti í samgöngum. Svo er verið að móta orkustefnu, þeirri vinnu á að ljúka á næsta ári, og þá verður spennandi að sjá hvort það sé gert ráð fyrir orkuskiptum í samgöngum þar því við þurfum auðvitað rafmagn til að knýja alla þessa bíla áfram, en við þurfum líka að flytja rafmagnið á réttu staðina. Það er því ekki alltaf sem hljóð og mynd fara saman.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.