Fréttasafn3. des. 2018 Almennar fréttir Framleiðsla Mannvirki

Vantraust verkalýðshreyfinga á innlenda framleiðendur

„Líklega gefa þeir hjá Bjargi sér að þeir fái innréttingarnar ódýrari í IKEA en vörur þeirra eru að mestum hluta framleiddar í láglaunalöndum í Austur-Evrópu og Asíu,“ segir Eyjólfur Eyjólfsson, stjórnarmaður í Félagi húsgagna- og innréttingaframleiðenda og framkvæmdastjóri Axis húsgagna, í Fréttablaðinu um helgina en undanfarið hafa verið fluttar fréttir af kaupum íbúðafélagsins Bjargs sem er í eigu ASÍ og BSRB á innfluttum einingahúsum og innfluttum innréttingum í stað þess að notast við innlenda framleiðslu og starfsfólk. Félagið er með 223 íbúðir í byggingu í Reykjavík og á Akranesi og mörg hundruð íbúðir í undirbúningi víðar.

Útiloka innlenda framleiðendur

Í  frétt Fréttablaðsins kemur fram að málið veki áleitnar spurningar fyrir komandi kjaraviðræður og áhrif launakostnaðar á Íslandi. Þar segir að það séu skrýtin skilaboð frá félagi í eigu ASÍ að útiloka fyrirfram innlenda framleiðendur frá þátttöku í að smíða innréttingar fyrir Bjarg íbúðafélag. „Þetta eru skrýtin skilaboð frá ASÍ,“ segir Eyjólfur. Þá segir að innlendir framleiðendur líti svo á að í þessu samkomulagi Bjargs og IKEA felist ákveðið vantraust á þá, auk þess sem verið sé að flytja út vinnu að óþörfu.

Verðleggur verkalýðsforystan íslenskt vinnuafl svo hátt að flytja þarf viðskipti til útlanda?

Þá kemur fram í fréttinni að Fréttablaðið og Ríkisútvarpið fjölluðu í síðustu viku um gagnrýni á að fyrirhuguð uppbygging á Akranesi væri öll unnin með innfluttum einingahúsum frá Lettlandi. Þar var spurt hvort verkalýðsforystan væri búin að verðleggja íslenskt vinnuafl svo hátt að hún þyrfti að flytja viðskipti sín til útlanda. Í Fréttablaðinu í síðustu viku vörðu Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs, viðskiptin með einingahúsin. 

Fréttablaðið/Vísir, 1. desember.