Fréttasafn



4. ágú. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Varar við því að sofið sé á verðinum í íbúðaruppbyggingu

Rætt er við Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, í frétt Morgunblaðsins um samdrátt í byggingariðnaði. Í fréttinni er sagt frá kranavísitölunni sem talin er ágætis vísbending um stöðu efnahagsmála hverju sinni en fjöldi skoðaðra byggingarkrana Vinnueftirlitsins er 161 á tímabilinu janúar til júlí í samanburði við 138 á síðasta ári og 209 árið 2018. 

Jóhanna Klara segir að síðasta úttekt Samtaka iðnaðarins hafi leitt i ljós samdrátt í húsbyggingum sem valdi nokkrum áhyggjum og um orsakir samdráttarins segir hún að þar komi að margir samverkandi þættir. Hún segir að margar byggingar hafi verið á síðari stigum, en erfiðlega hafi gengið að selja í búðir í hærri verðflokkum. Það megi rekja til þess að þéttingarstefna auki byggingarkostnað en ákall markaðarins sé fremur eftir ódýrari íbúðum sem henti fyrstu kaupendum og tekjulægri. 

Í fréttinni kemur fram að Jóhanna Klara telji stefnu sveitarfélaga gagnrýniverða og segir að þörf sé á meiri sveigjanleika til að lækka byggingarkostnað. Þessi staða hafi m.a. orðið til þess að verktökum gengur verr að fjármagna frekari uppbyggingu.

Þegar Jóhanna Klara er spurð um framtíðarhorfur segir hún að spár sýni áframhaldandi spurn eftir íbúðum á markaði en varar við því að sofið sé á verðinum og bendir á það bil sem myndaðist eftir efnahagshrun þar sem byggingarkranar nær hurfu sjónum.

Þá kemur fram í fréttinni að Jóhanna Klara segir nokkrar væntingar gerðar til hlutdeildarlána, úrræðis sem kynnt hefur verið af stjórnvöldum til fyrstu kaupenda en hún telur að áhrif þeirra gætu orðið til að gæða byggingariðnaðinn nýju lífi.

Morgunblaðið / mbl.is, 29. júlí 2020.

Morgunbladid-29-07-2020