Fréttasafn17. feb. 2021 Almennar fréttir

Varnarsigur hjá iðnaðinum

Jón G. Hauksson ræðir við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í þætti sínum Viðskipti með Jóni G. á Hringbraut um nýlegt Útboðsþing SI, átaksverkefnin Allir vinna og Íslenskt - láttu það ganga, stöðuna í hagkerfinu og fleira. Sigurður segir Útboðsþing Samtaka iðnaðarins hafa verið haldið í rúma tvo áratugi og yfirleitt sé beðið með eftirvæntingu eftir því, sérstaklega af félagsmönnum vegna þess að á þinginu er gefin  góð mynd af umsvifum eða fjárfestingum varðandi innviðauppbyggingu á árinu af hálfu hins opinbera.

„Þarna á að bjóða út verk fyrir tæplega 140 milljarðar króna á þessu ári. Það er auðvitað heilmikið en við sáum það í fyrra að þá voru verkefni kynnt upp á um 130 milljarða en ekki nema 70% af þeim urðu að veruleika. Það er auðvitað ekki það sama að kynna áform og hvað verður svo að veruleika þannig að við bíðum spennt.“

Sigurður segir stóran hluti af því sem fór ekki í gang hafi verið vegna Isavia. „Þær framkvæmdir kannski eðlilega fóru á bið.“ Hann nefnir að Isavia áætli framkvæmdir fyrir 12 milljarðar og Vegagerðin ætli einnig í miklar framkvæmdir á árinu, þá séu framkvæmdir við Nýja landspítalinn við Hringbraut farnar af stað af fullum þunga þannig að það sé margt í gangi. „Núna er góður tími fyrir hið opinbera til þess að fjárfesta því það er hagkvæmt en það er líka gott út af hagstjórninni.“

Í viðtalinu er farið inn á átakið Allir vinna sem Sigurður segir að sé þekkt frá því fyrir um áratug síðan en stjórnvöld hafi endurvakið það í fyrra. „Miðað við þær upplýsingar sem ég hef sem eru kannski óstaðfestir þá virðist umfangið vera langt langt umfram væntingar sem sýnir að landsmenn hafa tekið vel við sér í fyrra og eru að ráðast í framkvæmdir heima fyrir. Þetta skiptir svo miklu máli af því þetta heldur uppi atvinnustiginu. Þarna eru hundruðir eða þúsund manna sem hafa þá vinnu.“

Sigurður segir það varnarsigur hjá iðnaðinum í fyrra og stóru tíðindin séu þau að þó hagkerfið hafi tekið þessa miklu dýfu, kannski mestu dýfu í 100 ár, þá sé byggingariðnaðurinn ekki að taka eins mikla dýfu, sögulega séð hafi niðursveiflan verið meiri. „Við teljum að þetta megi þakka meðal annars átakinu eins og Allir vinna og innspýtingu inn í opinbera fjárfestingu.“

Á vef Hringbrautar er hægt að horfa á viðtalið við Sigurð í heild sinni frá mínútu 02:00.

Hringbraut, 10. febrúar 2021.

Hringbraut-10-02-2021Jón G. Hauksson ræðir við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI.