Fréttasafn5. mar. 2020 Almennar fréttir

Varúðarráðstafanir vegna kórónaveiru COVID-19

Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög hafa fengið eftirfarandi frá Embætti landlæknis: 

Gripið hefur verið til margvíslegra varúðarráðstafana til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar COVID-19. Embætti landlæknis ítrekar mikilvægi almennra þrifa og að þau verði bætt eftir þörfum.

Þrif eiga að vera samkvæmt venjulegu þrifaplani á hverri starfsstöð. Þar sem hættustig er í landinu þarf auk þess að huga vel að reglubundnum sértækum þrifum í sameiginlegum rýmum t.d. í fundarherbergjum, kaffistofum og lyftum.

Starfsfólk er hvatt til að sinna þrifum vel á sínum starfsstöðvum. Við hvetjum alla til að fylgjast vel með leiðbeiningum sem koma frá landlækni og heilbrigðisfólki varðandi sóttvarnir, almenna umgengni og þrif:

  • Gæta vel að hreinlæti, þvo hendur reglulega með sápu og nota handspritt.
  • Forðast snertingu við augu, nef og munn.
  • Hugið vel að yfirborðsflötum t.d. hurðarhúnum, handriðum, lyftuhnöppum, snertiskjám, greiðsluposum og ljósarofum.
  • Sleppa handaböndum og faðmlögum og heilsa fremur með brosi.

Mikilvægt er að aðgengi að handspritti fyrir starfsmenn og gesti sé gott. Einnig er mælt með að öll ílát með gjafavöru, sælgæti og mat verði fjarlægð þar sem smit getur borist manna á milli með þeim.

Landlæknir hvetur fyrirtæki til að prenta meðfylgjandi leiðbeiningar út og hengja upp á viðeigandi staði í stærðinni A3 og plasta:

Frekari upplýsingar eru á vef Embættis landlæknis.