Fréttasafn



16. jan. 2018 Almennar fréttir

Vatnsmengun sýnir að styrkja þarf innviðina

Í hádegisfréttum RÚV í dag var rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, um áhrif mengunar í neysluvatni af völdum jarðvegsgerla sem greint var frá í fréttum í gærkvöldi. Í morgun var sagt frá því að Ölgerðin og Coca Cola á Íslandi stöðvuðu framleiðslu á drykkjarvörum vegna mengunarinnar. Sigurður segir í fréttinni á RÚV að fyrirtækin hljóti að skoða bætur vegna þess tjóns sem varð af því. Hann segir að í nýlegri skýrslu samtakanna um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi hafi verið bent á ýmislegt sem betur mætti fara í vatnsveitumálum og skerpa þurfi á mikilvægi þeirra sem undirstöðu lýðheilsu. „Það er mikilvægt og þetta mál sýnir það svo vel að þær ábendingar sem koma fram í skýrslunni verði teknar alvarlega.“

Sigurður segir að mál sem þetta geti ekki bara bitnað á framleiðslufyrirtækjum heldur einnig ímynd landsins þar sem hreinleiki vatnsins leiki stórt hlutverk. „Það er kristaltært að fréttir af menguðu vatni geta auðvitað skaðað þessa ímynd og það er mjög slæmt.“ Hann segir að fyrirtæki sem verða fyrir tjóni af menguninni gætu átt bótarétt á hendur þeim sem sjá þeim fyrir vatni. „Fyrirtæki hljóta að skoða þann möguleika.“

Í lok fréttarinnar kom fram að Ölgerðin og Coca-Cola á Íslandi hafi hafið framleiðslu og dreifingu að nýju eftir að staðfesting barst frá heilbrigðisyfirvöldum um að kalda vatnið standist allar gæðakröfur og sé í lagi. 

Á vef RÚV er hægt að hlusta á fréttina.