Fréttasafn



13. des. 2016 Almennar fréttir

Vaxandi áhyggjur stjórnenda stærstu fyrirtækjanna

Í nýrri könnun Gallup fyrir SA meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins koma fram vaxandi áhyggjur þeirra af aðstæðum í atvinnulífinu, einkum í útflutningsgreinum. Þá er mikill viðsnúningur í mati þeirra á horfum á næstunni þar sem jafn margir búast við batnandi og versnandi horfum. Vinnuaflsskortur er töluverður en tæpur helmingur fyrirtækja finnur fyrir honum. Búast má við 1,5% fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu sex mánuðum. 

Í könnuninni kemur fram að 54% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn á innanlandsmarkaði á næstu sex mánuðum, 41% segja að hún standi í stað en 5% að hún minnki. Horfur virðast einnig góðar á erlendum mörkuðum. 40% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn, 47% að hún verði óbreytt og 9% að hún minnki. Minnst bjartsýni hvað erlenda eftirspurn varðar er í iðnaði þar sem 27% stjórnenda telja að hún minnki og í sjávarútvegi þar sem 17% þeirra telja að svo verði.

Stjórnendur í öllum atvinnugreinum og stærðarflokkum fyrirtækja búast við verðbólgu undir 2,5% markmiði Seðlabankans á næstu 12 mánuðum.  

Nánar um könnunina á vef SA.