Fréttasafn7. jún. 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Vaxtahækkun á versta tíma fyrir heimilin og fyrirtækin

Við erum með hagkerfi sem er í miklum slaka, atvinnuleysi er umtalsvert og við þurfum að beita tækinu svolítið til þess að skapa hér hagvöxt og störf. En þetta er svona aðeins að koma í hliðina á okkur og gerir það að verkum að hugsanlega er ekki hægt að beita stýrivöxtunum með jafn virkum hætti og hefði þurft til þess að örva efnahagslífið. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í Speglinum á Rás1/Rás2 þar sem fjallað er um að miklar hækkanir á byggingavörumarkaði auki hættuna á því að verðbólga hækki enn frekar og að Seðlabankinn bregðist við með hækkun stýrivaxta. 

Í fréttinni kemur fram að slík hækkun komi afar illa við fyrirtæki og heimili á versta mögulega tíma að mati Ingólfs. Hrávara á heimsmarkaði hafi hækkað mikið undanfarið, þar með talið verð á helstu efnum til byggingagerðar. Hafi hækkunin verið einkar mikil á stáli og timbri. Áhrifin nái yfir byggingamarkaðinn eins og hann leggur sig og von sé á miklum hækkunum á næstunni bæði hjá birgjum og verktökum. Þær hækkanir hafa svo áhrif á verðbólgu sem hefur verið vel yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans á þessu ári.

Ingólfur segir: „Við höfum séð miklar launahækkanir hér innanlands og húsnæðisverðið hefur verið að hækka og síðan eru áhrif af gengislækkun krónunnar líka að koma fram í þessari verðbólgu sem við sjáum núna standa í einhverjum 4,4%. Fari svo að verðbólgan verði enn meiri gæti Seðlabankinn þurft að bregðast við með hækkun stýrivaxta, jafnvel þótt hækkun á hrávörumarkaði sé utan áhrifasviðs Seðlabankans. Sú vaxtahækkun kæmi á versta tíma fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.“

Spegillinn á Rás1/Rás2, 4. júní 2021.