Vaxtahækkun kemur sér illa fyrir fyrirtæki og heimili
„Þetta kemur sér illa fyrir fyrirtæki sem mörg hver eru rétt að komast á lappirnar eftir efnahagsáfallið sem hérna var og reyndar fyrir heimilin líka sem eru í sömu sporum, rétt að jafna sig eftir þetta áfall,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI í kvöldfréttum RÚV. En hann segir að vaxtahækkun Seðlabankans sé ekki óviðbúin. „Verðbólgan er náttúrulega of mikil.“
Í frétt RÚV kemur fram að um sé að ræða fjórðu vaxtahækkunin á 7 mánuðum en Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um hálft stig og eru vextir nú 2%. Einnig kemur fram að það gangi illa að ná verðbólgunni niður í 2,5% markið. Að stórum hluta séu það hækkanir á húsnæði og hrávörum sem kynt hafi undir verðbólgunni.
Framboðsvandi á íbúðamarkaði er ekki leystur
Þá kemur fram í frétt RÚV að hækkanir á húsnæðismarkaði að undanförnu séu fyrst og fremst tilkomnar vegna skorts á húsnæði þar sem allar hillur séu tómar. Ofan á skortinn bætist við mikill innflutningur vinnuafls undanfarin misseri. Ólíklegt sé að það dragi úr honum og fyrirtæki búi í auknum mæli við skort á starfsfólki. En húsnæðisskorturinn virðist ekki á undanhaldi. Ingólfur: „Við teljum reglulega íbúðir í byggingu og þar er ekkert sem bendir til þess að það verði viðsnúningur í því alveg á næstunni. Því miður þá sjáum við ekki að framboðsvandinn sé leystur.“
RÚV, 17. nóvember 2021.