Fréttasafn4. sep. 2018 Almennar fréttir Nýsköpun

Vaxtarsproti ársins er Kaptio sem jók veltu um 211%

Sprotafyrirtækið Kaptio hefur verið valið Vaxtarsproti ársins sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, afhenti Vaxtarsprotann í morgun í Café Flóru í Grasagarðinum í Laugardal. Myndirnar tók Birgir Ísleifur og hægt er að skoða fleiri myndir á Facebook SI

Si_vaxtarsprotinn_2018-21

Kaptio

Kaptio selur nýja kynslóð bókunarkerfa fyrir ferðaiðnaðinn þar sem upplifun viðskiptavina er látin vera í fyrirrúmi. Viðskiptavinir félagsins eru ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur með starfsstöðvar á Íslandi, Bretlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Kína og Ástralíu. Tekjur Kaptio jukust um 211% milli áranna 2016 og 2017, þær fóru úr 71 milljón króna í 221 milljón króna. Vægi erlendra tekna hefur sífellt orðið meira og í dag eru erlendar tekjur tæplega 85% af heildartekjum. Fjöldi starfsmanna jókst á sama tíma úr 18 í 32. Félagið hóf störf árið 2012 og í janúar 2014 byrjaði fyrsti ferðaskipuleggjandinn að nota fyrstu útgáfuna af hugbúnaðarlausn Kaptio. Stofnendur Kaptio eru þeir Arnar Laufdal Ólafsson og Ragnar Ægir Fjölnisson. Félagið hefur fengið öfluga fjárfesta til liðs við sig en meðal þeirra eru Frumtak Ventures, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Kaskur fjárfestingafélag og Capital A Partners sem er bandarískur fjárfestingasjóður. Smári Rúnar Þorvaldsson, stjórnarmaður hjá Kaptio, og Arnar Laufdal Ólafsson, forstjóri Kaptio, tóku á móti viðurkenningunni. 

Viðurkenningar fyrir vöxt í veltu

Þrjú önnur sprotafyrirtæki, Kerecis, Gangverk og Orf-Líftækni, hlutu einnig viðurkenningar fyrir vöxt í veltu en Kaptio sem sýndi mestan hlutfallslegan vöxt auk þess að uppfylla önnur viðmið dómnefndar fær nafnbótina Vaxtarsproti ársins.

Si_vaxtarsprotinn_2018-12

Kerecis

Sigurvegari í flokki fyrirtækja með veltu frá 10-100 milljónum er Kerecis, Vaxtarsproti ársins 2017, með 202% vöxt í veltu. Kerecis er lækningavörufyrirtæki sem notar roð til að græða sár og styrkja líkamsvefi, til dæmis við meðhöndlun á sykursýkissárum, endurgerð á brjóstum og til viðgerðar á kviðslitum. Fyrirtækið hefur haslað sér völl í Bandaríkjunum sem er einn kröfuharðasti markaður í heimi fyrir lækningavörur. Félagið hefur nú tvö ár í röð meira en þrefaldað sölu sína, en megintekjur þess koma frá Bandaríkjamarkaði. Kerecis er með skráð einkaleyfi í Bandaríkjunum og fleiri en 50 öðrum löndum og hafa meira en 20 þúsund sjúklingar verið meðhöndlaðir með sáraroði félagins á undanförnum árum. Baldur Tumi Baldursson, sviðsstjóri klínískra rannsókna hjá Kerecis, og Guðmundur Magnús Hermannsson, yfirmaður fjármála og framleiðslu hjá Kerecis, tóku á móti viðurkenningunni. 

Si_vaxtarsprotinn_2018-16

Gangverk

Sigurvegarinn í flokki fyrirtækja með veltu yfir hundrað milljónum króna er Gangverk með 85% vöxt í veltu á milli ára. Gangverk var stofnað árið 2011 og starfar við hugbúnaðarþróun og ráðgjöf. Stærstu verkefni félagsins í dag snúa annars vegar að stafrænni byltingu á einu elsta fyrirtæki heims, uppboðshúsinu Sotheby‘s og eigin vöruþróun en félagið þróar og rekur vakta-, verkefna- og samskiptatól fyrir fyrirtæki. Atli Þorbjörnsson, yfirmaður tæknimála, tekur við viðurkenningunni. Atli Þorbjörnsson, yfirmaður tæknimála hjá Gangverki, tók á móti viðurkenningunni.

Si_vaxtarsprotinn_2018-19_1536066017790

Orf-Líftækni

Þá er það sönn ánægja að tilkynna að ORF Líftækni rauf 1 milljarðs króna múrinn á síðasta ári en velta félagsins fór úr rúmum 900 milljónum króna árið 2016 í rúman 1,2 milljarð árið 2017. ORF Líftækni er leiðandi á heimsvísu í plöntulíftækni. Fyrirtækið framleiðir og selur sérvirk prótein sem notuð eru sem innihaldsefni í BIOEFFECT húðvörurnar, við læknisfræðilegar rannsóknir og í önnur þróunarverkefni fyrirtækisins. ORF hefur þróað tækni til að framleiða slík prótein í byggi, en aðferðin er afrakstur tveggja áratuga vísinda- og þróunarstarfs. BIOEFFECT vörurnar hafa fengið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir virkni og gæði og eru núna seldar hjá leiðandi smásölum um allan heim. Hjá ORF Líftækni og dótturfyrirtækjum þess starfa ríflega 60 manns. Björn Örvar, einn af stofnendum Orf-Líftækni, og Frosti Ólafsson, forstjóri Orf-Líftækni, tóku á móti viðurkenningunni.

Samstarfsverkefni SI, SSP, HR og Rannís

axtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Þetta er í 12. skiptið sem viðurkenningarnar eru veittar en tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja. Í dómnefnd voru Ari Jónsson fyrir Háskólann í Reykjavík, Lýður Skúli Erlendsson fyrir Rannsóknarmiðstöð Íslands, Erlendur Steinn Guðnason fyrir Samtök sprotafyrirtækja og Sigríður Mogensen fyrir Samtök iðnaðarins.

Viðurkenningar frá 2007

Eftirfarandi fyrirtæki hafa hlotið Vaxtarsprotann:

 • 2007 Marorka
 • 2008 Mentor
 • 2009 Mentor
 • 2010 Nox Medical
 • 2011 Handpoint
 • 2012 Valka
 • 2013 Meniga
 • 2014 DataMarket
 • 2015 Kvikna
 • 2016 Eimverk
 • 2017 Kerecis
 • 2018 Kaptio

Eftirfarandi fyrirtæki hafa fengið viðurkenningu fyrir góðan vöxt:

 • 2007 Gagarín, Stiki, Stjörnu-Oddi
 • 2008 Betware, Valka, Kine
 • 2009 Naust Marine, Gogogic, Saga Medica
 • 2010 Valka, Hafmynd, Menn og Mýs
 • 2011 Marorka, Trackwell, Gogogic
 • 2012 Kvikna, ORF Líftækni, Thorice
 • 2013 Controlant, Nox Medical, Lceconsult
 • 2014 Valka, Nox Medical, Skema
 • 2015 Kvikna, Valka
 • 2016 Lauf Forks, Orf Líftækni, Valka
 • 2017 TeqHire, Valka, Kvikna
 • 2018 Kerecis, Gangverk, Orf-Líftækni

 

Si_vaxtarsprotinn_2018-23Mynd af viðurkenningarhöfum ásamt ráðherra og fulltrúum Samtaka iðnaðarins, talið frá vinstri: Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, Atli Þorbjörnsson, yfirmaður tæknimála hjá Gangverki, Björn Örvar, einn af stofnendum Orf-Líftækni, Smári Rúnar Þorvaldsson, stjórnarmaður hjá Kaptio, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Arnar Laufdal Ólafsson, forstjóri Kaptio, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Frosti Ólafsson, forstjóri Orf-Líftækni, Baldur Tumi Baldursson, sviðsstjóri klínískra rannsókna hjá Kerecis, og Guðmundur Magnús Hermannsson, yfirmaður fjármála og framleiðslu hjá Kerecis.

Vaxtarsprotinn

Hér fyrir neðan er hægt að nálgast fréttir um Vaxtarsprotann. 

Frétt Stöðvar 2 um Vaxtarsprotann.

Frétt RÚV um Vaxtarsprotann.

Frétt mbl.is um Vaxtarsprotann.

Frétt Viðskiptablaðsins um Vaxtarsprotann.

Frétt Fréttablaðsins um Vaxtarsprotann.

Frétt Vísis um Vaxtarsprotann.