Fréttasafn



14. okt. 2019 Almennar fréttir Menntun

Vefurinn Nám og störf opnaður

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, opnaði í dag formlega vefinn Nám og störf en hann byggir á grunni eldra vefsvæðis sem IÐAN fræðslusetur hefur lengi haldið úti. Nokkrir smærri vefir hafa verið sameinaðir í einn stærri í samvinnu við Samtök iðnaðarins, Rafmennt og Verkiðn.

Vefnum er ætlað að stuðla að samvinnu og samtali á milli skóla og atvinnulífs samhliða því að vekja áhuga á verklegum greinum og gera aðgengilegar upplýsingar um fjölbreytt störf og námsleiðir þeim tengdum. Þar fyrir utan er vefurinn hluti hugmyndafræði sem byggir á að til lengri tíma skili það meiri árangri en tímabundin átaksverkefni, að fræða ungt fólk og þjálfa í að taka sjálfstæðar ákvarðanir um nám og störf. Áherslurnar eru þrenns konar; fræða – skoða – prófa, þar sem atvinnulíf og skóli vinna saman að því að fræða ungt fólk skipulega um fjölbreytileika atvinnulífsins og gera þau betur í stakk búin að tengja þær upplýsingar eigin áhuga og hæfileikum.