Fréttasafn12. jan. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Vegakerfið skapar Íslandi verðmæti

Stefania-Kolbrun-AsbjornsdottirRætt er við Stefaníu Kolbrúnu Ásbjörnsdóttur, hagfræðing á efnahags- og samkeppnishæfnisviði SA, í Morgunútvarpi Rásar 2, um vegakerfið þar sem kemur fram að mati Samtaka iðnaðarins þurfi hátt í 200 milljarða króna til að koma vegakerfinu í viðunandi horf. Stefanía telur að ríkið verði að veita meðgjöf úr ríkissjóði enda skapi vegakerfið verðmæti. Hún geldur varhug við því að hið opinbera fari að treysta um of á græna skatta til að fjármagna vegakerfið enda hafi þeir það að markmiði að draga úr notkun á vegakerfinu. „Þetta eru skattar sem hvetja einstaklinga og fyrirtæki til þess að draga úr notkun á vegakerfinu og mengun. Eftir því sem þessum sköttum gengur betur í því þá dragast tekjur saman. Það er afstaða Samtaka atvinnulífsins að eðlilegt sé að sá sem notar borgi fyrir það alla vega upp að einhverju marki. Og auðvitað málefnaleg rök fyrir því að það þurfi að ráðast í einhverjar breytingar á þessu kerfi. En að okkar áliti má það þó ekki gleymast í allri þessari umræðu sem er yfirvofandi að vegakerfið skapar Íslandi verðmæti sem það getur varla verið án.“ Hún segir að vegakerfið sé til að mynda undirstaða þess að hægt sé að veita þjónustu með góðu móti um allt land. „Það skapar þess vegna fyrirtækjunum rekstrargrundvöll um allt land og stuðlar til dæmis að því að ferðalangar komist á sinn áfangastað. Þetta spilar lykilhlutverk í gjaldeyrissöfnuninni sem Ísland byggir lífsviðurværi sitt á. Í ljósi þessara verðmæta sem vegakerfið skapar okkur þarf það mögulega ávallt að vera ófjármagnað að hluta eins og það hefur verið með einhvers konar meðgjöf frá ríkissjóði. En allt í góðu og besta mál að endurhugsa þann hluta sem notendur greiða fyrir.“

Í viðtalinu í Morgunútvarpinu ítrekar Stefanía  afstöðu SA að skattheimta á Íslandi sé nú þegar með því mesta sem þekkist og það verði að hafa í huga bæði heildarskattheimtu og fyrirsjáanleika þegar verður ráðist í þessar breytingar „Að okkar mati er ekkert sem bendir til þess að það sé nauðsynlegt fyrir hið opinbera að taka til sín enn stærri hluta af verðmætasköpuninni sem á sér stað hérna. Við skulum ekki gleyma því að hver króna sem rennur í ríkissjóð er einni krónu færra í vinnu til verðmætasköpunar. Á endanum er það verðmætasköpun sem á sér hér stað sem getur staðið fyrir því að skatttekjur ríkissjóðs geti aukist með tíð og tíma. Og við getum staðið undir öllum okkar nauðsynlegu innviðum og opinberu þjónustu sem við viljum auðvitað öll að sé sem best.“ 

RÚV, 12. janúar 2023.