Fréttasafn



14. maí 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Vegið að hagsmunum sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda

Yfirlitin benda til þess að verið sé að fella almenn viðskiptasambönd og aðkeypta þjónustu frá hinum ýmsu aðilum undir kaup á efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Við höfum efasemdir um að þetta samræmist upprunalegu markmiði ríkisins um að efla sjálfstæða framleiðslu. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, sem finnst orka tvímælis þau vinnubrögð RÚV um kaup af innlendum sjálfstæðum framleiðendum árið 2019 sem miðað er við í þjónustusamningi RÚV við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Meðal þess sem sé flokkað sem sjálfstæð framleiðsla séu greiðslur til þáttastjórnenda í þáttum sem framleiddir séu af RÚV. Sigríður segir að hún voni að nýr þjónustusamningur ríkisins við RÚV taki á þessu. „RÚV teygir sig mjög langt í skilgreiningu á því hvað telst sjálfstæður kvikmyndaframleiðandi. Við teljum að með því sé vegið að hagsmunum greinarinnar.“

Kaup af sjálfstæðum framleiðendum undir viðmiði

Í fréttinni kemur fram að í gögnum sem Fréttablaðið hafi fengið afhent eftir úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Samkvæmt þjónustusamningnum bar RÚV að verja að lágmarki 11% af heildartekjum sínum til kaupa á utanaðkomandi framleiðslu en hafi ekki náð lágmarksviðmiðum um kaup af innlendum sjálfstæðum framleiðendum árið 2019 sem miðað er við í þjónustusamningi RÚV við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Þá kemur fram í fréttinni að í ársreikningi RÚV segi að heildartekjur hafi numið 6,87 milljörðum. Námu kaupin af sjálfstæðum framleiðendum 722 milljónum króna í fyrra og sé það undir viðmiðinu. Fram komi í ársskýrslu RÚV að upphæðin sé 766 milljónir króna, sem sé yfir viðmiðinu. Talan sem gefin sé upp í ársskýrslunni sé 44 milljónum króna hærri upp á krónutölu. Í fréttinni segir að engar skýringar hafi fengist hjá RÚV á þessu misræmi þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. 

Á vef Fréttablaðsins er hægt að nálgast yfirlit yfir alla sjálfstæða framleiðendur RÚV og greiðslur til þeirra á árunum 2016 til 2019.

Fréttablaðið / Frettabladid.is,14. maí 2020.