Fréttasafn



7. nóv. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Vegið að hagsmunum sjálfstæðrar kvikmyndaframleiðslu

Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að sjálfstæðir kvikmyndaframleiðendur hafi miklar áhyggjur af því að gagnrýni frá þeim verði ekki tekin með í reikninginn við gerð nýs þjónustusamnings mennta- og menningarmálaráðuneytisins við Ríkisútvarpið en nýr samningur til ársins 2024 mun líta dagsins ljós fyrir áramót. Rætt er við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra hugverkasviðs SI, sem segir að útfærsla þjónustusamningsins skipti sköpum fyrir hagsmuni félagsmanna SI. „Ég trúi ekki öðru en að ráðuneytið eigi við okkur samtal um þessi mál áður en gengið verður frá þjónustusamningnum. RÚV teygir sig mjög langt í skilgreiningu á því hvað telst sjálfstæður kvikmyndaframleiðandi. Við teljum að með því sé vegið að hagsmunum greinarinnar.“

Engin svör frá ráðuneytinu 

Í fréttinni kemur fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi ekki svarað fyrirspurnum um stöðuna á samningagerðinni en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins sé hún á lokametrunum. Þá segir í fréttinni að helstu áhyggjurnar snúi að því að ekki verði skerpt á skilgreiningu á hvað sé sjálfstæður framleiðandi en RÚV skilgreini sjálfstæðan framleiðanda sem „seljanda tilbúins efnis eða umsjónarmann eða framleiðanda efnis“. Samkvæmt reglugerð um Kvikmyndasjóð megi hins vegar finna skilgreininguna „sjálfstæður framleiðandi er fyrirtæki sem hefur kvikmyndagerð að meginstarfi“. Einnig kemur fram í fréttinni að Samtök iðnaðarins hafi óskað eftir svörum frá ráðuneytinu fyrir meira en ári og hafi fundað með Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í mars. Síðan hafi engin svör borist.  

Fella almenn viðskiptasambönd undir kaup frá sjálfstæðum framleiðendum

Þá kemur fram í Fréttablaðinu að samkvæmt núgildandi þjónustusamningi sé RÚV skyldað til að láta einn tíunda af útgjöldum renna til sjálfstæðra framleiðenda. Yfirlit yfir viðskipti RÚV við sjálfstæða framleiðendur á árunum 2016 og 2017 séu aðgengileg á vef Alþingis og að þar sjáist að í mörgum tilfellum sé um að ræða þáttastjórnendur og jafnvel aðrar opinberar stofnanir. „Yfirlitin benda til þess að verið sé að fella almenn viðskiptasambönd og aðkeypta þjónustu frá hinum ýmsu aðilum undir kaup á efni frá sjálfstæðum framleiðendum,“ segir Sigríður. „Að okkar mati þarf að fara ofan í saumana á þessu og tryggja að upprunalegur tilgangur þessa hlutverks RÚV um að efla kvikmyndaframleiðslu á Íslandi nái fram að ganga.“ 

Beðið eftir stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðunar á RÚV

Í fréttinni segir jafnframt að RÚV neiti að láta af hendi yfirlit yfir viðskipti við sjálfstæða framleiðendur árið 2018 og sé það nú til umfjöllunar hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þá segir að ríkisendurskoðun sé nú að vinna stjórnsýsluúttekt á RÚV og nái úttektin til fjármögnunar og reikningsskila og samkeppnisreksturs RÚV. Í fréttinni kemur fram að í byrjun hausts hafi verið gert ráð fyrir að skýrslan yrði tilbúin í síðari hluta október og að samkvæmt heimildum Fréttablaðsins sé dregin upp dökk mynd af stjórnsýslu RÚV í skýrslunni.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 7. nóvember 2019. 

Frettabladid-07-11-2019