Fréttasafn



4. feb. 2019 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Veigra sér við að gera athugasemdir við innviðagjald

Á vef RÚV segir frá því að Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, hafi verið gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun og sagt frá því að verktakar, fjárfestar og fleiri veigri sér við að gera athugasemdir við innviðagjald sem Reykjavíkurborg innheimtir vegna húsbygginga, svo þeir fái gott veður. Þá segja samtökin vafa leika á lögmæti gjaldsins, sem geti numið milljónum króna á íbúð og reynist gjaldið ólögmætt gætu endurkröfur numið milljörðum. „Við erum að skoða hvað við getum gert í þessu máli. Við höfum fengið þetta lögfræðiálit, sem fyrr segir, þar sem niðurstaðan eru sú að það séu allavega sterf rök fyrir því að gjaldheimta af þessu tagi  sé ólögmæt. Við höfum verið að afla okkur frekari upplýsinga um þessa samninga og erum í framhaldinu að finna málinu heppilegan farveg innan kerfisins.“ 

Sterk rök fyrir því að innheimta innviðagjalds sé ólögmæt

Sigurður sagði gjaldið vera einhvers konar einkaréttarlegan samning borgarinnar og lóðaeigenda um samstarf við uppbyggingu hverfanna þar sem lóðirnar eru. Gjaldið sé hátt og geti numið milljónum króna á einstaka íbúð og sé það íbúðakaupandinn sem á endanum greiði það. Þá segir að Samtök iðnaðarins hafi fengið lögfræðiálit um lögmæti gjaldheimtunnar fyrir tveimur árum sem Sigurður segir enn í fullu gildi. Gjaldið sé ekki skattur í skilningi laga og heldur ekki þjónustugjald sem ætlað sé að standa undir tiltekinni þjónustu heldur almennri þjónustu á svæðinu. Niðurstaðan sé að sterk rök séu fyrir því að innheimta gjaldsins sé ólögmæt. „Ef svo reynist vera rétt þá gætu lóðahafar krafist endurgreiðslu þessa gjalds og ég myndi halda það, allavega miðað við þær tölur sem við höfum heyrt, að í heildina litið hlaupi gjaldtakan á milljörðum króna, horft yfir síðustu árin.“ 

RÚV, 4. febrúar 2019.