Vel sóttur fjarfundur um öryggi á vinnustað
Þriðji fundurinn í fjarfundaröð Mannvirkis – félags verktaka sem fór fram í vikunni var vel sóttur en fundaröðin er haldin í samstarfi við Vinnueftirlitið. Á fundinum hélt Axel Ólafur Pétursson, teymisstjóri brotateymis hjá Vinnueftirlitinu, erindi undir yfirskriftinni „Öruggari vinnustaðir – hvað gengur vel og hvað má bæta“? Hann fór yfir hvar fyrirtæki í mannvirkjagerð eru að standa sig vel og hvað þarf að bæta þegar kemur að öryggismálum. Hann fór m.a. yfir að fyrirtæki í mannvirkjagerð legðu meiri áherslu á öryggisfræðslu, framkvæmdu í auknum mæli formlegt áhættumat áður en vinna hefst og að þátttaka starfsfólks í öryggismálum hefur aukist, þ.e. fleiri sem benda á hættur og leggja til úrbætur. Fallhætta er enn algengasta örsök slysa í mannvirkjagerð og úr því þarf að bæta, auk þess sem mikilvægt er að skrá „næstum slys“ til að læra megi af reynslunni.
Þá fór Guðmundur Mar Magnússon, teymisstjóri slysateymis hjá Vinnueftirlitinu, yfir tölfræðilegar upplýsingar varðandi slys í mannvirkjagerð og bar saman við aðrar atvinnugreinar sem og slysatíðni í Danmörku. Hann greindi m.a. frá því að stefnt væri að því að gera umræddar upplýsingar opinberar á vef Vinnueftirlitsins.
Að lokum fjallaði Hjörtur Sigurðsson, stofnandi Mynstru sem veitir ráðgjöf um gervigreind og sjálfvirkni í byggingariðnaði, um hvernig gervigreind og sjálfvirknivæðing nýtist í byggingariðnaði og hvernig hún getur stuðlað að auknu öryggi. Hann sagði frá hvernig hægt er að nýta gervigreind við eftirlit á vinnustað, áhættugreiningu o.fl. sem eykur öryggi starfsfólks á verkstað.
Fjarfundaröðin hefur verið vel sótt og fundargestir tekið virkan þátt í umræðum. Um 40 manns sátu þennan þriðja fjarfund.