Fréttasafn



1. feb. 2022 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Verðbólga meira og minna um allan heim

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóri SI, á Fréttavaktinni á Hringbraut um verðbólgu sem ekki hefur verið hærri í 10 ár og afléttingar samkomutakmarkana. Björn Þorláksson ræðir við Sigurð sem segir að Samtök iðnaðarins hafi bent á það í ríflega tvö ár að það væri líklegt að við yrðum í þessari stöðu núna vegna þess að þá sást samdráttur í íbúðauppbyggingu. Minna hafi verið að koma inn á markaðinn en áður. Sigurður segir að líka þurfi að horfa á þá staðreynd að það væri verðbólga meira og minna um allan heim. „Við sjáum eins og í Bandaríkjunum að verðbólgan hefur ekki verið hærri í um fjóra áratugi.“ Hann segir að það sem sé að gerast út í heimi með heimsfaraldri kórónuveiru verði tilfærsla frá þjónustu yfir í vörur.  Eftirspurn eftir vörum aukist sem leiði þá til hærra verðs. Hann segir að verðbólgan að þessu sinni sé ekki séríslenskt ástand. 

Ýmis rök fyrir að fara hraðar í afléttingar

Þegar Sigurður er spurður út í afléttingaákvarðanir ríkisstjórnarinnar segir hann að það séu ýmis rök fyrir því að fara hraðar í afléttingar. „Það sem verður erfitt hjá okkur núna næstu vikurnar verður væntanlega það að margir munu smitast en afleiðingarnar eru litlar.“ Hann segir að það muni þýða að margir verði í einangrun sem þýði að það verði áskorun að halda starfsemi fyrirtækja gangandi, það sé snúið mál. „Okkur finnst allt í lagi að stíga varlega til jarðar í þessu en auðvitað eru rök ekki þau sömu og áður að halda fólki frá samfélaginu svo dögum skiptir. Það verður að segja það eins og það er.“

Má búast við stýrivaxtahækkun

Sigurður er spurður hvaða breytingar verði gerðar við næstu stýrivaxtaákvörðun. Hann segir það vera erfitt að segja hver hækkunin verður en það megi búast við hækkun bara með hliðsjón af verðbólgunni. Sigurður segir að núna séu fleiri heimili sem skulda óverðtryggt þannig að þau finni meira fyrir vaxtabreytingum, sérstaklega hækkunum, það muni án efa hafa áhrif og fyrirtækin finni auðvitað líka fyrir því, það verði minna til þeirra að sækja. „Það sem er hins vegar áhugavert þarna er að Seðlabankinn er að bregðast við tvennu, húsnæðishækkanirnar sem skýra þriðjunginn af verðbólgunni og svo þessi innflutta verðbólga, verðlag í heiminum að hækka.“ Hann veltir því upp hvort Seðlabankinn ætti að horfa samhliða vaxtahækkun til mögulega annarra úrræða til að hafa áhrif. 

Hér er hægt að nálgast Fréttavaktina í heild sinni. Viðtalið við Sigurð hefst á mínútu 7:00.

Hringbraut , 31. janúar 2022.