Verðbólgan væri 3,3% en ekki 4,3% með gömlu aðferðinni
„Nú er verðbólgan 4,3% og hefur verið býsna þrálát, ef við værum enn þá með gömlu aðferðina, þá væri verðbólgan 3,3%, þá væri verið að lækka vexti og við værum í allt annarri efnahagslegri stöðu,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í Silfrinu á RÚV í gær og vitnar til þess að mælingu á verðbólgu hafi verið breytt fyrir um ári síðan en þá hafi húsaleiga farið að telja meira en eignaverð. Þetta hafi gerst á þeim tíma sem leiguverð hækkaði. Sigurður fagnar aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem felast í fyrsta húsnæðispakkanum. Hann segir: „Ég held að Seðlabankinn verði núna að slaka á lánþegaskilyrðunum.“ Hann sagði að það hafi verið jákvætt að bankinn greip til aðgerða í síðustu viku. En við teljum að það muni ekki hafa mikil áhrif. Það verður að taka stærri skref og gera fleirum kleift að komast inn á markaðinn. Það er ekki hægt að ætla fólki að greiða hærri leigu en það væri að gera í afborganir af íbúð.“
Auk Sigurðar taka þátt í umræðunum Már Wolfgang Mixa, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, og Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Valgeir Örn Ragnarsson stýrir þættinum.
Sigurður segir þetta vera þannig mál að hver dagur skipti mjög miklu máli og telji mikið. „Hver dagur í þessu ástandi er gríðarlega dýr samfélaginu. Þannig að ég geri ráð fyrir því einfaldlega að helstu sérfræðingar í ráðuneytunum og Seðlabankanum vinni núna á sólarhringsvöktum við það að reyna að koma þessum málum á hreint. Sú útfærsla sem að stjórnvöld kynntu eða þær hugmyndir ég held að þær geti alveg gengið upp, en auðvitað þarf að að vinna þær hugmyndir alveg ofan í kjölinn.“
Þá kemur fram í máli Sigurðar um húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar að stóra málið akkúrat núna sé það að ríkisstjórnin ætli sér að bregðast við dómi Hæstaréttar og höggva á hnútinn. „En síðan eru ágætar tillögur þarna og okkar fyrstu viðbrögð hafa verið jákvæð. Og ég held að það sé rétt hjá ríkisstjórninni að nálgast þetta þannig að gera þetta í skrefum. Vegna þess að þetta eru mjög flókin mál og þetta verður ekki leyst með einhverju einu. Það eru ekki til töfralausnir á húsnæðismarkaðnum og ég veit að við höfum kannski verið að leita að þeim í langan tíma, en þetta er bara sambland af heildstæðum aðgerðum sem þarf að ráðast í til þess að að bæta úr. Ég meina, það er gott að sjá til dæmis markvissari húsnæðisstuðning. Það er aukinn fyrirsjáanleiki til dæmis varðandi hlutdeildarlán, sem gerir fleirum kleift að eignast sitt eigið húsnæði. Nýting á séreignarsparnaði.“
Á vef RÚV er hægt að horfa á Silfrið í heild sinni.
RÚV, 3. nóvember 2025.

