Verðhækkanir á aðföngum forsendubrestur
Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í hádegisfréttum Bylgjunnar um verðhækkanir á aðföngum á byggingamarkaði. Hann segir sögulegar hækkanir á aðföngum séu forsendubrestur og ríki og sveitarfélög verði að grípa inn í svo ófremdarástand á húsnæðismarkaði versni ekki enn frekar.
Sigurður segir nokkra þættir valda hækkun á aðföngum. „Annars vegar röskun á aðfangakeðju og hins vegar miklar hækkanir vegna stríðsátaka í Evrópu sem kemur í kjölfar hækkana sem við sáum á síðasta ári út af Covid. Eitt hefur tekið við af öðru og með stríðsátökunum í Evrópu hafa stórir markaðir hreinlega lokast og það þarf þá að finna nýja markaði sem eru talsvert dýrari.“ Hann segir þetta afar krefjandi aðstæður og verð á stáli til dæmis hafi fjórfaldast á afar skömmum tíma. „Verktakar eru með samninga sem að taka ekki tillit til atvika eins og þessa og er í raun í mörgum tilvikum forsendubrestur sem þarna hefur átt sér stað þannig að getur skapað talsverð vandræði hjá verktökum í þeim verkefnum sem þeir eru í nú þegar.“
Hætta á að minna verði byggt og nú þegar er verið að byggja alltof lítið
Í fréttinni kemur einnig fram að það gefi augaleið að hækkun á aðföngum muni stuðla að hærra húsnæðisverði og stjórnvöld verði að grípa inn í. Sigurður segir að taka þurfi tillit til aðstæðna varðandi þá samninga sem þegar eru í gildi og koma þannig til móts við samningsaðila, verktakana. „Hins vegar þegar kemur að íbúðauppbyggingu þá er auðvitað hættan sú að það verði minna byggt og nú þegar er verið að byggja alltof lítið.“
Ríki og sveitarfélög bjóði upp á byggingarlönd þar sem hagkvæmt er að byggja
Þá kemur fram í fréttinni að Sigurður biðli til ríkis og sveitarfélaga að bjóða upp á byggingarlönd sem hagkvæmt er að byggja á. „Á nýjum svæðum eða allavega ekki á byggingarreitum þar sem þarf að fjarlægja mannvirki eða byggingar og fara í uppbyggingu þar sem erfitt er að athafna sig í miðri byggð og svo framvegis.“