Fréttasafn



2. maí 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Verðhækkanir á húsnæði vegna þess að ekki var brugðist við

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í frétt RÚV um húsnæðismarkaðinn að áhyggjuefnið hafi hingað til fyrst og fremst verið að innlendir þættir hafi dregið verðbólguna áfram. Annars vegar sé það þjónusta, og þá að miklu leyti launaliðurinn, en hins vegar húsnæðismarkaðurinn. „Samtök iðnaðarins telja íbúðir í byggingu tvisvar á ári og við höfum séð það að íbúðum í byggingu hefur bara fækkað stöðugt frá árinu 2019. Við höfum bent á að ef ekki yrði brugðist við þeirri stöðu að þá gæti það leitt til mikilla verðhækkana, þannig ég sé ekki betur en að það hafi raungerst.“

Í fréttinni er einnig rætt við Kristján Þórð Snæbjarnarson, formann Rafiðnaðarsambandsins, sem segir meðal annars að stjórnvöld ekki hafa brugðist nægilega vel við þeirri stöðu sem upp er komin, sem hafi leitt til vaxandi verðbólgu. „Við erum auðvitað að sjá skort á íbúðarhúsnæðum núna og það er að skila sér í þessu, að fasteignaverð er auðvitað að rjúka upp og hefur hækkað alveg verulega núna á síðustu mánuðum.“

RÚV, 30. apríl 2022.