Fréttasafn



18. mar. 2022 Almennar fréttir Mannvirki

Verðhækkanir og hökt í afhendingu aðfanga á byggingamarkaði

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í Viðskiptablaðinu að verðhækkanir á aðföngum og hökt í afhendingu vegna innrásarinnar í Úkraínu muni ekki hafa góð áhrif á byggingageirann sem sé í talsvert miklum vexti núna. „Við sjáum verulega aukningu í umfangi greinarinnar samferða uppsveiflunni í hagkerfinu. Á endanum bitnar þetta hugsanlega á byggingakostnaði og byggingarhraða en það er óljóst hversu mikil áhrifin verða." Hann segir í Viðskiptablaðinu að fasteignaverðshækkanir undanfarið hafi verið knúnar áfram af framboðsskorti og ef það dragi úr byggingarhraðanum aukist framboðsskorturinn. „Hækkun á verði aðfanga hækkar byggingakostnað. Hærri byggingarkostnaður leiðir til þess að endurskoða þarf verkefni og endurmeta með tilheyrandi töfum."

Þá kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins að miklar sveiflur í verði olíu hafi líka áhrif en Brent norðursjávarolían hafi verið komin niður í það verð sem hún var í fyrir innrásina í Úkraínu en hækkaði aftur talsvert í dag. „Enn sem komið er hefur ekki verið hægt að ráðast í orkuskipti á margvíslegum búnaði sem notast er við í byggingariðnaði og verkstaðir eru sumir hverjir ekki með aðgengi að rafmagni. Hækkun á olíu hefur því áhrif þar." 

Einnig er rætt við Sigurð Brynjar Pálsson, forstjóri Byko, sem segir 90% alls steypustyrktarjárns sem flutt sé inn fyrir Íslandsmarkað koma frá Hvíta Rússlandi. Mikil óvissa og verðhækkanir einkenni ástandið á þessum markaði en verð á stáli hefur hækkað um 68% frá því stríðið hófst og  ekki sjái fyrir endann á þeim hækkunum.

Viðskiptablaðið, 17. mars 2022.