Fréttasafn



8. sep. 2017 Almennar fréttir Menntun

Verðlauna framúrskarandi lausnir í starfsnámi í Evrópu

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett í gang samkeppni um góðar lausnir í starfsnámi í litlum og meðalstórum fyrirtækjum í Evrópu. Leitað er að góðum dæmum sem sýna skilning atvinnurekenda og starfsmanna á þörfinni fyrir samfellt starfsnám á mismunandi stigum starfsferils. Verðlaunin nefnast „Training at Work Award 2017“ og er hægt að senda inn umsóknir fram til 27. september næstkomandi.

Helstu markmið verðlaunanna eru meðal annars að gera framúrskarandi starfsnám sýnilegt og vekja athygli almennings á mikilvægi náms á starfsferli.

Umsækjendur verða að hafa starfsemi í að minnsta kosti einu landa Evrópusambandsins eða EFTA. Því geta íslensk fyrirtæki sótt um verðlaunin sem er skipt upp í þrjá flokka, fyrir örfyrirtæki, lítil fyrirtæki og meðalstór fyrirtæki.

Hér er hægt að fá upplýsingar um verðlaunin og senda inn umsókn.