Fréttasafn15. jan. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi Umhverfis og orkumál

Verðþróun raforku vegur að samkeppnishæfni

„Það sem hefur verið að gerast er að fjárfesting í uppbyggingu endurnýjanlegrar orku í Evrópu er að þrýsta raforkuverði niður. Á meginlandinu hefur raforkuverð til orkusækins iðnaðar farið lækkandi á síðustu misserum en hér heima hefur það verið að þokast upp á við,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í samtali við Markaðinn í dag þar sem meðal annars er fjallað um raforkuverð á norræna uppboðsmarkaðinum Nord Pool sem hefur lækkað verulega á síðustu mánuðum. 

Ingólfur segir þetta vega að samkeppnisstöðu orkusækins iðnaðar hér á landi en hann sé að skapa umtalsverð verðmæti fyrir þjóðarbúið, hvort sem litið er til starfa eða útflutningsverðmætis. „Samkeppnishæfni skiptir höfuðmáli fyrir sjálfbærni greinarinnar. Raforkukostnaður er umtalsverður hluti heildarkostnaðar þessara fyrirtækja og því skiptir þróun hans miklu máli fyrir samkeppnishæfni þeirra. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að álverin, svo dæmi sé tekið, hafa sum hver verið rekin með tapi undanfarin misseri sem er mikið áhyggjuefni. Þessi fyrirtæki eru í samkeppni við erlend fyrirtæki sem njóta raforkuverðs sem fer lækkandi, auk ríkisstyrkja. Þó að við séum ekki með opinn raforkumarkað þá er innlend framleiðsla á afurðum sem byggir á íslenskri raforku í samkeppni við erlenda framleiðendur.“

Fréttablaðið/Markaðurinn, 15. janúar 2020.