Fréttasafn



18. jan. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda Starfsumhverfi

Verðum að sækja tækifærin í kvikmyndaiðnaði

Kvikmyndagerð hefur verið í sókn undanfarin misseri og við eigum að gefa enn frekar í. Við verðum að sækja tækifærin núna í stað þess að bíða aðgerðalaus eftir því að betri tímar komi. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, í Morgunblaðinu þar sem Höskuldur Daði Magnússon, blaðamaður, fjallar um hugmyndir sem SI og Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SÍK, hafa lagt fram þess efnis að endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar verði tímabundið hækkuð til að laða stór erlend kvikmyndaverkefni hingað til lands. Núna er hægt að sækja endurgreiðslu á 25% þess kostnaðar sem fellur til við kvikmyndagerð. Í Morgunblaðinu kemur fram að hugmyndir um hækkun  feli það í sér að hærri endurgreiðsluprósenta gæti laðað hingað stærri verkefni sem jafnvel taka lengri tíma í framkvæmd og gætu einnig falið í sér tökur í kvikmyndaveri. Þannig gætu verkefni sem kosta á milli 1-2 milljarða í framkvæmd fengið endurgreiðslu á 30% kostnaðar en verkefni yfir 2 milljörðum gætu fengið endurgreiðslu á 35% kostnaðar. 

Sóknaraðgerð og arðbær fjárfesting fyrir ríkissjóð

Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að viðræður hafi staðið yfir við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið síðustu mánuði, síðast á fundi í desember. „Það hefur verið tekið nokkuð vel í þessar tillögur og þær eru, eftir því sem ég best veit, til skoðunar í ráðuneytinu,“ segir Sigríður. Hún segir að Íslendingar standi betur en margar aðrar þjóðir í baráttunni við kórónuveiruna og aðstæður hér séu hentugar fyrir komu kvikmyndagerðarmanna. „Áhuginn á að koma hingað með stór verkefni er svo sannarlega til staðar, en það þarf að sækja þessi verkefni sem er erfitt í dag þar sem Ísland stendur höllum fæti þegar kemur að samkeppnishæfni endurgreiðslukerfisins. Þetta er verðmætasköpun sem við þurfum á að halda. Þetta væri sóknaraðgerð og arðbær fjárfesting fyrir ríkissjóð. Við þurfum að fjölga störfum og slík verkefni örva eftirspurn, ekki síst hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. Þar að auki eru kvikmyndir og sjónvarpsseríur sem framleiddar eru hér á landi einhver besta landkynning sem við fáum.“

Nyr-formadur_1610964833110Stærri verkefni með hækkun endurgreiðslu

Einnig er rætt við Lilju Ósk Snorradóttur, formann SÍK, sem segir að það sé enginn vafi á það sé hægt að ná inn enn stærri verkefnum með hækkun endurgreiðslu. Hún nefnir sem dæmi tökur fyrir sjónvarpsþættina Game of Thrones hér á landi. Hér hafi farið fram mikið af útitökum en þegar hafi komið að tökum í kvikmyndaveri hafi framleiðendurnir ákveðið að velja Írland í stað Íslands vegna hærri endurgreiðsluprósenta þar sem er 32% og 37% ef tökur fara fram utan þéttbýlustu staðanna. „Maður sér það núna að við hefðum auðveldlega verið aðaltökulandið.“ Lilja bendir á að kerfið sé sjálfbært fyrir ríkissjóð; tekjur af verkefnum hafi skilað sér í ríkissjóð áður en endugreiðslan á sér stað. Því sé um hreina viðbót að ræða. „Og þá erum við ekki einu sinni farin að telja með afleiddu hlutina eins og til dæmis jákvæð áhrif á fyrirtæki í ferðaþjónustu og veitingahúsarekstur.“ 

Hagsmunaaðilar ósáttir við breytingar á lögum um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar

Þá kemur fram í umfjölluninni í Morgunblaðinu að fjölmargir hagsmunaaðilar séu ósáttir við drög að frumvarpi til breytinga á lögum um endurgreiðslur vegna kvikmynda sem kynnt hafi verið í samráðsgátt stjórnvalda nýverið. Endurgreiðslur eigi að framlengja út árið 2025 en ekkert sé vikið að hækkun endurgreiðsluprósentu. Þess í stað séu lagðar til ýmsar breytingar sem sagðar eru byggðar á ábendingum Ríkisendurskoðunar. Til að mynda að hlutdeild í rekstrarkostnaði myndi ekki lengur stofn til endurgreiðslu. Óttast margir að uppsagnir verði í geiranum af þessum sökum. 

Vilji mennta- og menningarmálaráðherra að hækka endurgreiðsluhlutfallið í 35%

Í frétt Morgunblaðsins er einnig rætt við Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem segir kosti núverandi endurgreiðslukerfis marga. „Það er minn vilji að endurgreiðsluhlutfallið verði hækkað, upp í 35%. Það eru einmitt núna kjöraðstæður til þess að styrkja enn betur við kvikmyndagerðina, og í því fælust stór tækifæri. Við gætum auðveldlega gert kvikmyndaiðnað að fjórðu útflutningsstoð Íslands, laðað hingað til lands fleiri ferðamenn og skapað miklar gjaldeyristekjur.“

Morgunblaðið, 18. janúar 2021. 

Morgunbladid-18-01-2021