Fréttasafn16. apr. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun Starfsumhverfi

Verður átak að koma hjólum atvinnulífsins af stað aftur

Rætt er við Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann SI, um stöðuna í atvinnulífinu í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Í viðtalinu minnir hún á að við höfum verið komin í kólnun í hagkerfinu áður en COVID-veiran hafi komið til skjalanna. „Það var gríðarlegt atvinnuleysi eða um 9-10 þúsund manns, það var búið að vera að lækka vexti og eftirspurn var minnkandi. Við vorum að sigla niður í öldudal. Við héldum að við mundum fara niður á þessu ári en fljótt upp aftur, jafnvel á haustmánuðum, en núna með tilkomu COVID-veirunnar erum við að fara í miklu lengra tímabil heldur en við gerðum ráð fyrir og það er auðvitað áhyggjuefni.“

Í viðtalinu segir Guðrúnu að við séum ekki ein í þessu núna. „Flest ríki heims eru að glíma við það sama. Þannig að það verður ákveðið átak hjá okkur öllum að koma þessum hjólum af stað og á fulla ferð aftur. Ég hef líka fulla trú á að okkur muni takast það.“

Hún segir að við eigum að nota tímann núna sem við höfum til þess að horfa til framtíðar og hvernig atvinnulíf sjáum við fyrir okkur hérna á Íslandi. „Við sáum það að á fyrsta áratug þessarar aldar lögðum við höfuðáherslu á fjármál hér á Íslandi og það hrundi og sprakk í andlitið á okkur árið 2008, ekki með góðum árangri. Þá kom næsta. Við virðust alltaf vera einnar atvinnugreinar þjóð. Þá kemur ferðaþjónustan og hún er búin að draga vagninn á öðrum áratug þessarar aldar. Við höfum sagt hjá Samtökum iðnaðarins, við skulum núna byggja fleiri stoðir undir atvinnulíf á Íslandi, tækifærið er núna. Við skulum leggja áherslu á nýsköpun og þróun og við skulum láta þriðja áratuginn vera tileinkaða nýsköpun. Þess vegna erum við núna með þetta ár tileinkað nýsköpun hjá Samtökum iðnaðarins.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Guðrúnu í heild sinni.